145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er mjög mikið í húfi. Í fyrsta lagi er það í húfi að við munum einfaldlega halda áfram að sjá Ríkisútvarpið veikjast. Möguleikar eru til dæmis á að finna leið til þess að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Ég yrði mjög heilluð ef okkur tækist að gera það. Mér finnst það mikilvægt því að ákveðin andúð hefur skapast á milli fjölmiðla út af peningum. Ég mundi frekar vilja að hún væri út af málefnum og samkeppni væri um fréttaflutning og annað. [Kliður í þingsal.]

Æ, strákar nennið þið ekki að fara fram að tala? Þið eruð svo háværir. Hættið þessu blaðri. Ég vil taka fram að það eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Brynjar Níelsson sem hafa verið að gaspra svona hátt. (ÖS: Við erum svefndrukknir.) Já, farið þá fram og verið drukknir þar af svefni.

Ég beindi ítrekað spurningum til hæstv. menntamálaráðherra. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki fengið nein svör, sér í lagi út af því að ég ásamt fleirum hef óskað eftir nærveru ráðherrans. Mér finnst alvarlegt að ráðherra svari mér ekki og öðrum þingmönnum. Ég skynja það alveg að ráðherrann langar til að tjá sig en ég veit ekki af hverju hann gerir það ekki. Hann er hræddur við eitthvað. Kannski kemur ráðherrann á mælendaskrá og tjáir sig um þetta mál og kemur með yfirlýsingu. Ég skora á ráðherrann að standa í lappirnar.