145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hvet forseta til að hleypa ráðherranum á mælendaskrá ef hann óskar eftir að tjá sig. Ég held að það færi vel á því að það væri gert núna þegar við erum komin vel á skrið í umræðu um stöðu Ríkisútvarpsins. Í því vinalega umhverfi sem hér er um miðja nótt held ég að hann sé nokkuð öruggur og geti verið öruggur í sínu skinni að ræða afstöðu sína til málsins. Ég held að það mundi hjálpa umræðunni ef hann gerði það.

Mig langar vegna umræðunnar og andsvarsins og svars hv. þingmanns að skerpa á því að fram hefur komið af hálfu stjórnenda Ríkisútvarpsins að með óbreyttu fjárlagafrumvarpi og lækkun útvarpsgjaldsins verði ekki hægt að standa við lögbundnar skyldur fjölmiðilsins. Það er ekki haft eftir stjórnarandstöðunni. Það er haft eftir forustu Ríkisútvarpsins. Ég vænti þess að ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra vill koma máli sínu í gegnum ríkisstjórn sé einmitt sú að hann sé sammála því að lögbundnar skyldur fjölmiðilsins séu í raun og veru í húfi. Það hefur komið fram að það sem muni gerast sé að næsta verkefni stjórnenda RÚV verði að ráðast í stórfelldan niðurskurð á árinu 2016, reka fjölda starfsfólks, eyðileggja dagskrá, bæði sjónvarps og útvarps, og fleygja þeim þjónustusamningi til fjögurra ára sem unninn hefur verið í samkomulagi við menntamálaráðuneytið. Það er það sem er í raun og veru í húfi.

Það hefur komið fram í einhverjum samskiptum mínum við hæstv. menntamálaráðherra að hann hafi enginn áform uppi um það að Alþingi endurskoði (Forseti hringir.) lögbundnar skyldur fjölmiðilsins. Ég sé ekki betur en að fjárlaganefnd og forusta ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) stefni lögbundnum skyldum Ríkisútvarpsins í hættu.