145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er grafalvarleg staða. Það er nú bara þannig að ráðherra hverrar stofnunar sem heyrir undir hann ber ábyrgð á þeirri stofnun. Það er alvarlegt ef stofnun getur ekki sinnt lögbundnu skyldum sínum. Þess vegna verður ráðherrann hreinlega að finna leið til að koma þessu máli inn. Maður fer að velta fyrir sér hvort einhver í ríkisstjórninni sé að reyna að bregða fæti fyrir hæstv. ráðherra. Þetta mun hvorki verða til þess að styrkja stöðu RÚV né hæstv. menntamálaráðherra.

Ég skil þetta ekki, enda er ég ekki fluga á vegg á ríkisstjórnarfundum, sem betur fer kannski, þar sem ég hef heyrt að sé oft hár rómur ýmissa.

Ég veit að ráðherranum er annt um menningu. Ég veit það. Ef ráðherrann stendur ekki í lappirnar og tryggir sína sýn — það var alla vega hægt að segja um fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra sem var talað um að hefði rörsýn og sæi bara markmiðin og gæfi ekki eftir. Nú skora ég á hæstv. menntamálaráðherra að standa í lappirnar með RÚV þannig að það geti staðið við sínar lögbundnu skyldur. Við munum standa með þér, mjög mörg, og líka fólk úr þingmannahópi stjórnarliðsins. Ég skora á ráðherrann að sýna smádug og hugrekki.