145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrr í kvöld eða fyrr í nótt óskaði ég eftir því að tveir hæstv. ráðherrar úr ríkisstjórn kæmu til þessarar umræðu, annars vegar hæstv. heilbrigðisráðherra og hins vegar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að svara fyrir niðurskurðinn til Landspítalans sérstaklega, en það er mat forsvarsmanna þeirrar stofnunar að að minnsta kosti 3 milljarða skorti til þess að Landspítalinn geti rekið sig, eins og kallað er. Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt mál og óskiljanlegt að við skulum ekki eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra áður en þessari umræðu lýkur, nema ríkisstjórnin hafi á prjónunum áform um að koma til móts við óskir stjórnarandstöðunnar hvað þetta snertir.

Hvað hæstv. menntamálaráðherra áhrærir — fyrst hann er nú kominn hingað í þingsalinn er það kannski lágmark að hann hlusti á það sem hér er sagt, því að ég hef grun um það að hann ætli ekki að taka þátt í umræðunni. Mér hefði fundist eðlilegt að hann gerði það, (Menntmrh.: Hvernig dettur þér það í hug?)og tek þar undir með formanni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Gripið fram í.) sem vakti athygli á því að hæstv. menntamálaráðherra hefur tjáð sig við fjölmiðla, það er eðlilegt og það er gott, en hann á að sjálfsögðu að tjá sig við Alþingi líka þegar við ræðum málefni þeirrar stofnunar sem undir hann heyrir. Hins vegar virði ég það við hæstv. menntamálaráðherra að koma til þessarar umræðu og hlýða á þau sjónarmið sem við höfum fram að færa.

Ég vil byrja á því að gera þau orð að mínum sem komu úr munni hv. þingflokksformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér áðan í þá veru að ef ekki verður fallið frá áformum um að lækka útvarpsgjaldið, blasir það við á næstu dögum að ráðast verður í stórfelldar uppsagnir á Ríkisútvarpinu. Það þarf að draga saman seglin. Það þarf að rifa öll segl. Það þarf að draga úr dagskrárgerð og skera niður og það er sýnt að Ríkisútvarpið geti illa, ef þá yfirleitt, staðið við lögbundnar skyldur sínar. Þetta er grafalvarleg staða. Mér finnst að fjárveitingavaldið verði allt að horfast í augu við það. Ég skil ekki þann illvilja sem ríkir í garð Ríkisútvarpsins og ég kallaði hann siðlausan illvilja því að hann er óútskýrður og er ekkert annað en illvilji. Þannig birtist þetta mér.

Ég hef sagt það, ég sagði það hér í kvöld og hef margoft sagt að ég hef iðulega verið mjög ósáttur við Ríkisútvarpið í tímans rás og hef jafnframt getið þess að það eigi við um okkur öll að einhverju leyti á sumum stundum. Í seinni tíð hef ég reyndar verið mjög ósáttur við margt sem þar hefur gerst stjórnunarlega. Uppsagnir á mjög vönduðum starfsmönnum. Ég ætla ekki að nefna nöfn að þessu sinni, en vandaðir, sjálfstæðir, gagnrýnir dagskrárgerðarmenn hafa verið látnir víkja og ég hef ekki skilið þær ákvarðanir á annan hátt en sem geðþóttaákvarðanir. Ég fullyrði að það ráðslag hefði ekki getað átt sér stað hér fyrr á tíð. Það voru iðulega átök í Ríkisútvarpinu, mjög harðvítug átök, það þekkir hv. þm. Helgi Hjörvar úr ættarsögu sinni, svo dæmi sé tekið, og ég geri það sjálfur líka, starfaði sjálfur á Ríkisútvarpinu í 10 ár 1978 til 1988. Þar voru oft harðvítug átök, en menn voru ekki látnir gjalda skoðana sinna með uppsögnum. Þeir voru stundum látnir gjalda þess á annan hátt, það voru iðulega erjur innan Ríkisútvarpsins þar sem saman voru komin mikil stórveldi andans á stundum, það er alveg rétt, en það er nýbreytni sem mér hefur þótt vera af hinu illa.

Ég nefni það til að leggja áherslu á að þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir hversu ósáttur ég hef verið með ýmsar ákvarðanir sem teknar hafa verið innan veggja Ríkisútvarpsins í seinni tíð vil ég horfa yfir það og horfa á þá kosti sem fólgnir eru í því að eiga þessa menningarstofnun, kjölfestu í íslensku menningarlífi og fjölmiðlaumhverfinu. Við eigum ekki að henda henni frá okkur.

Ég hef ekki farið rækilega í gegnum þá skýrslu sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum og hér á þingi að undanförnu, en eftir því að dæma sem ég hef þó flett í gegnum hana hefur mér fundist hún rýrari en ég átti von á eftir þær sveru yfirlýsingar allar sem voru gefnar í tengslum við hana. Mér finnst hún ósköp rýr í roðinu, verð ég að segja. Mér hefur reyndar stundum fundist umræðan um Ríkisútvarpið markast af því að menn telji sig vera stadda í milljónaþjóðfélagi. Við erum 330 þúsund, við erum ekki í Bretlandi þar sem BBC er. Ákvörðun um að hafa auglýsingatekjur til Ríkisútvarpsins byggir á því. Annaðhvort leggjum við af auglýsingar og drögum saman seglin í allri dagskrárgerð eða hækkum iðgjöldin. Við sjáum nú hvernig það gengur. Þess vegna erum við með þetta auglýsingaumhverfi og auglýsingar. Þess vegna var Rás 2 sett á laggirnar líka á sínum tíma á 9. áratug síðustu aldar. Það er nú bara veruleikinn.

Síðan er það hitt og um það eigum við að geta sameinast, að setja Ríkisútvarpinu hugsanlega einhverjar skýrari reglur um það hvernig þessu tekjuöflunartæki er beitt og komist hjá því að hafa kostun dagskrárgerðar og ýmislegt sem við erum mörg gagnrýnin á. Það er nokkuð sem við þurfum að gera. Við þurfum líka að taka umræðu um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins. Það var mjög mikið óráð á sínum tíma að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, opinberu hlutafélagi sem er hálfgerður bastarður. Hlutafélag er fleirtöluhugsun í mínum huga, félag um hluti, en þegar hluturinn er orðinn einn og undir afturendanum á einum ráðherra, þá þjónar það ekki því hlutverki sem við ætlum hlutafélögum. Það gerir það ekki. Það er leið til að fjarlægja stofnunina hinum lýðræðislega naflastreng sem á að vera í stjórnuninni.

Það er annað sem ég vakti athygli á og vil nota tækifæri til að ræða þegar hæstv. menntamálaráðherra er í þingsalnum, að mér finnst skipta máli hvað gerist innan veggja Ríkisútvarpsins á næstunni. Stendur þar til að taka allan blómann og einkavæða hann og fara með út í einkarekstur? Um það stóðu átök á 10. áratugnum og líka á þeim 9. hversu langt ætti að fara. Það voru til menn eins og minn ágæti félagi Hrafn Gunnlaugsson sem vildi að Ríkisútvarpið væri eins og safn, framleiddi ekki efni, heldur tæki það einvörðungu til sýningar eins og bókasafn gerir með bækur. Ég var þessu algerlega andvígur vegna þess að Ríkisútvarpið þarf að búa yfir kjarnastarfsemi, kjarna sem kann vinnu á sama hátt og Vegagerðin kann eða hefur á sínum snærum aðila sem geta búið til brú yfir jökulár á einni viku eins og gerðist hér og frægt var fyrir nokkrum missirum síðan.

Þetta er löng umræða sem vert er að taka við tækifæri. En ég met það mikils við hæstv. menntamálaráðherra að hafa komið til þessarar umræðu og gefið okkur tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og gera honum ljóst að hann hefur stuðning stjórnarandstöðunnar við að standa fast gegn kröfum og áformum fjárlaganefndar og einhverra í ríkisstjórn um að skera niður við Ríkisútvarpið. (Forseti hringir.) Við erum tilbúin að standa þessa vakt með hæstv. menntamálaráðherra og hvetjum hann til dáða í þessu efni.