145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. forseta gagnvart þeim ummælum sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hafði hér um starfsáætlun og skipulags þingsins. Auðvitað er mjög erfitt að skipuleggja þingið þegar stjórnarandstaðan er ekki tilbúin að gefa neitt út um það hvenær 2. umr. um fjárlagafrumvarp lýkur. Erum við ekki að nálgast 60 tíma um þetta mál? Meðan stjórnarandstaðan á Alþingi viðhefur svo gamaldags vinnubrögð að hún er ekki tilbúin að setja niður hvenær 2. umr. um fjárlagafrumvarp ársins 2016 lýkur er auðvitað erfitt annað en að láta umræður standa áfram og víkja út frá hefðbundnum starfsvenjum (Forseti hringir.) og öðru slíku. Það er miður desember, það styttist til jóla og það er á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að setja niður hvenær hún ætlar að ljúka þessari umræðu.