145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er eðlilegt að okkur sé mikið niðri fyrir. Þegar svefnleysi fer að sækja að fólki þá kemur það auðvitað augljóslega fram í ræðum þingsins og mér er mjög misboðið þegar hv. þingmenn tala um að við ræðum ekki um fjárlög Alþingis þann tíma sem við erum hér. Það er ekki rétt.

Ég ætla hins vegar að minna á það fólk sem stendur hér fyrir utan. Það er það fólk sem við erum að berjast fyrir hvort sem ríkisstjórnarflokkarnir kjósa að telja það í klukkutímum eða einhverju öðru. Þetta fólk borðar ekki klukkutíma eða prósentur en það borðar vonandi árangur sem við náum með því að tala hér.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin sagðist ætla að leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar. Hún ætlaði að vinna gegn sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefði íslensk stjórnmál og umræður í samfélaginu um nokkurt skeið. Það tel ég hana ekki vera að gera, hreint ekki, og ég er nokkuð viss um að ansi margir eru mér sammála.

Forseti er enginn nýgræðingur í þinginu og hann veit að það þarf að setjast niður og ræða málin. Það er hans að meta hvort best er að gera það á Þorláksmessu eða gamlársdag. Það er ríkisstjórnin sem þarf að fá samþykkt fjárlög íslenska ríkisins. Það er í höndum forseta að sjá til þess að þingið starfi með sóma. Að halda því fram að þeir þingmenn sem hér tala hvað mest séu ekki að vinna vinnuna sína er heldur ekki rétt. Okkur ber að standa vörð um það sem fjárlögin eru og við teljum þau ekki nógu góð. Við teljum að það þurfi að laga þau og það gerum við með því að reyna að sannfæra fólk, hvort sem það eru þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eða ráðherrar, og það gerum við með því að reyna að efna til samtals. En eins og við vitum þá er það af afskaplega skornum skammti því að þingmenn stjórnarmeirihlutans virðast vera svolítið fastir í sætum sínum eða einhvers staðar annars staðar en hér í þinginu að ræða málin.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna