145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja ræðu mína á að taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Ég er eiginlega hálfmiður mín eftir ummæli hæstv. fjármálaráðherra sem er ekki hægt að lesa á annan hátt en að hann sé að halda því fram að þeir sem þurfi að reiða sig á bætur almannatryggingakerfisins séu með einhvers konar sviksamlegum hætti að reyna að koma sér inn á það kerfi. Þess vegna megi bætur aldrei verða hærri en lágmarkslaun. Ég velti fyrir mér: Er hæstv. fjármálaráðherra að reyna að snúa umræðunni?

Samkvæmt Gallup-könnun sem Öryrkjabandalag Íslands lét gera eru 90% svarenda þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að lifa á þeim lágu upphæðum sem lífeyrisþegar hafa sér til framfærslu og 95% aðspurðra í könnuninni telja að það eigi að hækka bætur almannatrygginga á sama hátt og afturvirkt líkt og almennir launþegar hafa fengið á þessu ári.

Ég get ekki annað séð en að þarna sé verið að reyna að snúa umræðunni og gera öryrkja og ellilífeyrisþega á einhvern hátt tortryggilega og þar með að drepa umræðunni á dreif og reyna að gera tortryggilega þá baráttu sem farið hefur fram í þessum þingsal þar sem minni hluti Alþingis hefur barist fyrir því að kjör örorkubótaþega og ellilífeyrisþega verði bætt á þessu ári til þess að kjarabætur þeirra á árinu verði sambærilegar við það sem gerist á almennum vinnumarkaði.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna