145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nefna að það er gersamlega ólíðandi þegar hv. þingmenn eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, kemur í ræðustól áðan og nefnir það sérstaklega að ég hafi haft það á orði að aldraðir og öryrkjar gætu bara farið að vinna. Ég hef aldrei sagt þetta. Þetta er gersamlega ólíðandi og hlýtur að verða tekið upp í forsætisnefnd.

En ég ætla að ræða hér allt annað. Það kemur fram í Morgunblaðinu í dag að samningaviðræður við Rússa um veiðar okkar í Barentshafi hafi farið út um þúfur, þ.e. þeir hafi frestað öllum ákvörðunum fram í febrúar á sama tíma og þeir eru nýbúnir að gera samninga við bæði Færeyinga og Grænlendinga. Í nýlegum samningaviðræðum í London í lok nóvember um makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna fengu Íslendingar ekkert tilboð frá þessum vinaþjóðum okkar sem við erum að semja við. Sárast þykir manni auðvitað í öllu þessu ferli að Færeyingar skuli hafa brugðist því tilboði sem þeir komu með til okkar og stóðu síðan ekki við bakið á okkur í samningaviðræðunum eftir að hafa leitað liðsinnis okkar og sjálfir landað samningi.

Ég held að þessi framkoma sé algerlega óviðunandi og ástandið er mjög alvarlegt. Ég tel að á þessum tímamótum sé tímabært að endurskoða samkomulag okkar við Færeyinga og Norðmenn um gagnkvæmar veiðiheimildir. Ég tel að við eigum í þeim tvíhliða viðræðum sem fram undan eru við Færeyinga að slá af þær veiðiheimildir sem þeir hafa innan íslenskrar lögsögu. Ég tel að við eigum ekki að heimila Norðmönnum í framtíðinni að veiða loðnu á meðan ósamið er innan íslenskrar lögsögu en þeir hafa ekki veitt loðnu innan eigin lögsögu síðastliðin 15 ár. Ég tel að við eigum á þessum tíma að taka upp tvíhliða viðræður við Grænlendinga.

Á sama tíma finnst mér það einboðið miðað við þessar aðstæður að við endurskoðum afstöðu okkar gagnvart viðskiptabanni við Rússland. Það er okkur gríðarlega mikilvægt og hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir margar byggðir í landinu og þjóðarbúið í heild að við skulum ekki geta afsett þær vörur og (Forseti hringir.) viðhaldið þeim mörkuðum sem við höfum á síðustu áratugum unnið í Rússlandi. Miðað við það hvernig mál hafa þróast á þessum vettvangi tel ég að við þurfum að brjóta hér í blað.


Efnisorð er vísa í ræðuna