145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir kröftuga ræðu og sérstaklega tek ég undir lokaorð hans í ræðunni. Mér hefur fundist frekar skrýtið að sitja undir ræðum sumra hv. þingmanna meiri hlutans sem tala um að þeir vilji gera allt fyrir aldraða og öryrkja en svo þegar kemur að hinu praktíska framkvæmdaratriði, þ.e. að greiða atkvæði hér í þessum sal svo aldraðir og öryrkjar fái raunverulega kjarabætur, koðnar allt niður og ekki verður úr neinu og ekki eru greidd atkvæði með tillögum sem eru beinlínis til þess fallnar að bæta kjör þessara hópa líkt og gerðist í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. um fjáraukalög þar sem voru einmitt greidd atkvæði um að þessir hópar skyldu fá afturvirkar greiðslur. Ég þakka hv. þingmanni aftur sérstaklega fyrir að koma inn á þessi mál því að það er mjög skrýtið að fylgjast með þessum málflutningi.

Gott og vel, ég svo sem trúi því alveg að þessir hv. þingmenn vilji bæta kjör þessara hópa þó að þess hafi ekki séð beint stað í því hvernig þeir haga atkvæðum sínum á Alþingi. Nú er það hins vegar svo að þegar stóra planið er skoðað, þegar framtíðaráform ríkisstjórnarinnar til næstu ára eru skoðuð, er stefnan að draga úr umsvifum samneyslunnar. Er þetta ekki þáttur sem við ættum að ræða enn meira og einmitt við þessa hv. þingmenn, þ.e. hvernig þeir telja framkvæmanlegt að bæta kjör þessara hópa en ætla á sama tíma að minnka umsvif (Forseti hringir.) ríkisins? Getur hv. þingmaður hjálpað mér aðeins að varpa ljósi á þetta?