145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, það er kannski farið fram á svolítið mikið að biðja hv. þingmann úr liði stjórnarandstöðunnar að lýsa hugsunum eða ætlunarverki annarra þingmanna. Hver og einn getur svo sem bara talað fyrir sig.

Hins vegar langar mig að halda áfram að eiga orðaskipti við hv. þingmann um langtímaplanið og það hvernig hægt verði að reka samfélag fram í tímann. Ég tók eftir því að hv. þingmaður kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að ekki væri svigrúm til að borga niður skuldir. Við höfum reyndar rætt það á fyrri stigum í þessari umræðu að það er mjög bagalegt að gríðarlega stórar breytingartillögur skuli koma inn við umræðuna. Við kölluðum eftir þeim fyrir nokkrum dögum og sögðum að það væri fullt tilefni til þess að gera hlé á umræðunni til að fara almennilega yfir málin og sjá hreinlega hvernig þau standa þegar búið er að reikna saman þessar stóru tölur eins og að hugsa fyrir kjarasamningi við kennara sem gleymdist. Eins er með þetta samkomulag sem var gert milli ríkis og sveitarfélaga sem er talað um að gæti kostað eitthvað í kringum 1,5 milljarða.

Það sem hv. þingmenn hafa slumpað á að þetta þýði er að ríkissjóði verði skilað bara kannski rétt réttum megin við núllið þannig að ekki erum við núna að fara að borga niður skuldir. Svo er framtíðarverkefnið þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur það á planinu að draga úr umsvifum samneyslunnar. Telur hv. þingmaður þetta geta farið saman? Getum við borgað niður skuldir? Getum við bætt kjör lífeyrisþega? Getum við styrkt heilbrigðisþjónustuna með (Forseti hringir.) þetta langtímaplan í ríkisfjármálunum?