145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnskipulega hefur þetta leitt til stöðu sem er óviðunandi fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Hann hefur upplýst að hann hafi mótað stefnu í málefnum einnar helstu stofnunar síns ráðuneytis. Hann hefur lagt þá stefnu fyrir ríkisstjórnina og í ljós kemur að innan ríkisstjórnarinnar nýtur hann ekki stuðnings fyrir stefnunni. Í máli sem þessu á hann í rauninni engan móralskan kost annan en þann að segja af sér. Þannig lít ég á málið. Ég el að hann hafi algjörlega steytt á skeri. Auðvitað getur hæstv. ráðherra hengslast áfram ef hann vill, en hér er um slíkt lykilspursmál að ræða að þetta er það sem, með leyfi hæstv. forseta, er yfirleitt kallað „cabinet“-spursmál. Hæstv. ráðherra er ekki sætt við þessar aðstæður.

Hins vegar eru ekki öll kurl komin til grafar. Við höfum enn ekki lokið 2. umr. Það er mögulegt að hæstv. ráðherra verði dreginn að landi áður en 3. umr. lýkur. Mér þætti það ekki ólíklegt, í fyrsta lagi vegna þess að málið er viðamikið, í öðru lagi vegna þess að þetta er lykilstofnun og í þriðja lagi hafa ítrekað komið fram yfirlýsingar frá lykilmönnum Framsóknarflokksins sem þeir geta ekki svo auðveldlega hlaupið frá.

Í fyrra sagði til dæmis úr þessum ræðustól hv. þm. Ásmundur Einar Daðason í umræðum um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn hefur alltaf viljað verja Ríkisútvarpið, standa með Ríkisútvarpinu og við teljum Ríkisútvarpið mjög mikilvægan fjölmiðil. Ríkisútvarpið þjónar almannaþjónustuhlutverki og menningarlegu hlutverki … Öll þessi þrjú atriði eru gríðarlega mikilvæg.“

Hv. þm. Ásmundur Daðason bætti svo um betur fyrir örfáum vikum þegar hann sagði úr þessum sama ræðustól, með leyfi forseta:

„Mín persónulega skoðun, og skoðun Framsóknarflokksins til langs tíma, (Forseti hringir.) hefur verið sú að það sé mikilvægt að hafa hér ríkisútvarp sem öflugan fjölmiðil hvað varðar menningu.“

Með öðrum orðum, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er formaður þingflokks Framsóknarflokksins og getur ekki hlaupist frá þessari stuðningsyfirlýsingu við Ríkisútvarpið.