145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:57]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir afdráttarlaust svar. Ég er honum sammála, það er óviðunandi staða fyrir ráðherra í ríkisstjórn að ná ekki fram í gegnum ríkisstjórnina þeirri stefnumótun sem hann sjálfur stendur fyrir, hefur lagt áherslu á og kynnt opinberlega. Það er umhugsunarefni að forustumenn ríkisstjórnarinnar skuli setja ráðherrann í þessa stöðu. Það er aftur á móti leikjafræði sem er kannski ekki viðeigandi að við veltum mikið fyrir okkur á þessum vettvangi. Hér eru fjárlögin til umræðu og staða Ríkisútvarpsins. Hvernig horfir staða Ríkisútvarpsins við hv. þingmanni í ljósi þeirra tíðinda að þetta frumvarp kemur að öllum líkindum ekki fram og að útvarpsgjaldið verður ekki það sem að var stefnt? Við vitum að Ríkisútvarpið situr uppi með þungar lífeyrisskuldbindingar sem það var skilið eftir með þegar því var breytt í opinbert hlutafélag um árið. Þetta hefur reynst mjög þungur baggi á rekstri Ríkisútvarpsins. Allar þessar aðgerðir draga þróttinn úr stofnuninni sem virðist þrátt fyrir allt standa sig býsna vel í því að snúa vörn í sókn. Hvernig horfir staða þessarar mikilvægu menningarstofnunar við hv. þingmanni í ljósi þess sem virðist nú vera að gerast með afdrif frumvarps menntamálaráðherra?