145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Þegar ráðherrann nær ekki fram stefnu varðandi lykilstofnun er honum tæpast sætt lengur í ríkisstjórn. Þá er hann orðinn það sem stundum heitir á ensku máli, með leyfi forseta, „lame duck“. Ég rifja upp nýlegt dæmi. Þegar svo virtist sem mér tækist ekki að koma fram stefnu minni varðandi framlög til þróunarsamvinnu í tíð síðustu ríkisstjórnar gekk ég á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og sagði henni að ég mundi þá ekki sitja lengur í ríkisstjórn hennar. Menn verða að taka afleiðingum stefnu sinnar og gerða. Menn sitja ekki sem ráðherrar bara til að hirða launin og vera í ríkisstjórninni. Menn eru þar til að fylgja fram ákveðinni stefnu.

Varðandi framtíð Ríkisútvarpsins tel ég, eins og ég sagði áðan, þessu máli ekki lokið. Ef ríkisstjórnin kemur ekki með einhverjum hætti til liðsinnis við hæstv. menntamálaráðherra heldur lætur hann hanga til þerris á snúrunni, eftir að vitað er að hann hefur heitið forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins því að koma þessu máli í gegn, væri það eiginlega það sama og að koma honum úr ríkisstjórn. Það er það sama og að afskrifa hann. Ég tel ekki að það gerist. Ég tel ekki að það sé vilji fyrir því.

Í annan stað vil ég líka segja að Ríkisútvarpið þarf auðvitað eins og allir aðrir stöðugt að vera í endurskoðun og endurmati á sínu starfi. Þrátt fyrir þessa stöðu ber ég ekki þann kvíðboga fyrir framtíð þeirrar menningarstofnunar að ég telji að hún verði fyrir óbætanlegu höggi. Þrátt fyrir allt er ég þeirrar skoðunar að það sé svo mikil lífseigja og þróttur í starfsmönnum hennar og svo mikil væntumþykja í hennar garð af þjóðarinnar hálfu að henni verði aldrei spyrnt fram af ætternisstapa.