145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Mig langar að dvelja dálítið við stöðu Ríkisútvarpsins í þessari ræðu minni. Staða stofnunarinnar er sérkennileg, bæði að því er varðar rekstur hennar og innri stöðu, en ekki síður er mjög óvenjuleg sú pólitíska staða sem upp er komin að því er varðar orð ráðherra málaflokksins ítrekað sem voru framan af einungis áform sem voru orðuð í opinberri umræðu en tóku síðan á sig mynd frumvarps um að fallið yrði frá lækkun útvarpsgjaldsins sem kemur á daginn að situr fast í ríkisstjórn.

Við höfum stundum velt upp þeirri pólitísku stöðu sem upp kemur þegar slík átök verða innan ríkisstjórnar og þegar stuðningur stjórnarflokka við stefnumál ráðherra er ekki fyrir hendi og hvaða áhrif það hefur þá á stöðu viðkomandi ráðherra. Þá held ég að rétt sé að nefna líka það sem gerðist hér á síðasta þingi þegar tekjubandormurinn, ef ég man rétt, var afgreiddur með fyrirvara, öll fjárlagatengdu málin voru afgreidd með fyrirvara út úr þingflokki Framsóknarflokksins. Allir sem hafa fylgst með stjórnmálum á Íslandi og annars staðar í löndunum í kringum okkur vita að ef fjárlagafrumvarpið stendur veikum fótum stendur ríkisstjórnin veikum fótum. Sú pólitíska melding sem Framsóknarflokkurinn gaf með því að hafa almennan fyrirvara á fjárlagafrumvarpinu og fjárlagatengdum málum sendi þau pólitísku skilaboð að ríkisstjórnin nyti ekki fulls stuðnings annars stjórnarflokksins. Þetta leiddi síðan til töluverðs uppgjörs milli stjórnarflokkanna þar sem afraksturinn varð sá að matarskatturinn var lækkaður úr áformuðum 12% niður í 11% og fjármálaráðherra gerði grein fyrir einhverju sem þau kölluðu öll mótvægisaðgerðir.

Hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, fór mjög framarlega í flokki efasemdarmanna í Framsóknarflokknum á þessum tíma og gekk raunar svo langt að segja að mótvægisaðgerðirnar þyrftu að vera svo öflugar að niðurstaðan yrði sú að aðgerðirnar yrðu til bóta fyrir alla hópa samfélagsins. Þetta orðaði hann þráfaldlega, bæði í fjölmiðlum og í ræðustól Alþingis, þ.e. að hækkuninni á matarskatti og mótvægisaðgerðunum væri ekki bara beint að tekjulægstu hópunum, heldur yrði tryggt að mótvægisaðgerðirnar yrðu nægilega öflugar til að enginn bæri skarðan hlut frá borði.

Það sem var svo kynnt í þessu undir kaflaheitinu Mótvægisaðgerðir var fyrst og fremst tvennt, annars vegar barnabætur upp á 1 milljarð í hækkun og hins vegar vaxtabætur upp á 400 milljónir. Þetta taldi Framsóknarflokkurinn að dygði sem mótvægisaðgerð og skilaði sér nánast allur á græna takkann við afgreiðslu málsins og taldi sig hafa fengið fullvissu fyrir því að mótvægisaðgerðirnar vægju nægilega þungt á móti.

Nú gerist það við afgreiðslu og úrvinnslu fjáraukalaga að fram kemur að af þessum 1 milljarði í barnabætur hafa 600 milljónir verið dregnar til baka vegna þess að viðmiðunarmörkin reyndust hafa þau áhrif og þeim var ekki breytt. Hið sama gerist með vaxtabæturnar þannig að þessar 400 milljónir verða 200, 200 ganga til baka til ríkissjóðs þannig að niðurstaðan er sú að af 1.400 milljónum ganga 800 til baka til ríkissjóðs og eftir eru 600 milljónir sem eru þá mótvægisaðgerðirnar sem Framsóknarflokkurinn taldi nægilegar á sínum tíma. Ég hef ekki heyrt neinn framsóknarmann óska eftir því að þessi umræða yrði tekin upp aftur og ekki heldur þeir framsóknarmenn sem töluðu um að allar tíundir samfélagsins ættu að koma betur út úr aðgerðinni eftir á, standa betur eftir hana en fyrir.

Þetta finnst mér algjörlega órætt og ég nefni þetta hér vegna þess að áþekk staða er nú komin upp, þó að það snúist um eitt tiltekið mál, sem er sú staða sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er kominn í þegar frumvarpið um að fallið verði frá lækkun útvarpsgjaldsins er fast í ríkisstjórn.

Hvað þýðir það? Hvað þýðir að mál sé fast í ríkisstjórn? Ég minni okkur á að þegar við erum að tala um þessar tæpu 400 milljónir sem munar erum við ekki að tala um óbættar greiðslur út úr ríkissjóði, við erum að tala um að útvarpsgjaldið verði áfram 17.800 kr. í stað þess að verða 16.400 þannig að almenningur greiði 1.400 kr. meira á ári til Ríkisútvarpsins og þeir peningar fari óskertir til stofnunarinnar. Ríkissjóður bíður engan skaða af aðgerðinni þannig að hér er fyrst og fremst um að ræða pólitíska afstöðu til Ríkisútvarpsins sem hefur þurft að búa við árvissa aðför allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við.

Þegar ráðherrann ræður ekki við að koma svona mikilvægu stefnumáli í gegnum ríkisstjórn sem hann á sæti í má efast um að hann hafi stöðu til að færa fram nokkurt mál. Það var áhugavert þegar hæstv. ráðherra kom til fundar við Alþingi að okkar beiðni, sem var ánægjulegt af því að það var óskað eftir fleirum í þingsal sem ekki létu sjá sig, að hann tók ekki þátt í andsvörum eða viðræðum eða samtölum hér við þingmenn. Í ræðum sem fluttar voru hér eftir að hæstv. ráðherra kom til þings kom fram að það verður lögð fram breytingartillaga bæði við tekjuöflunarbandorminn og fjárlagafrumvarpið þar sem þessar fjárhæðir verða til staðar, þ.e. efnislega mun Alþingi fá tækifæri til að taka afstöðu til sömu efnisþátta og þeirra sem sitja fastir í ríkisstjórn.

Það er dálítið kúnstugt að ráðherrann hefur ítrekað gefið upp afstöðu sína og stöðu málsins við fjölmiðla, síðast í sjöfréttum í gærkvöldi, en hefur ekki frá því að fjárlagaumræðan hófst tekið þátt í umræðunni hér og rætt stöðu málsins við Alþingi. Þegar um svona mikið átakamál er að ræða og við vitum að það er stuðningur við málið í stjórnarandstöðunni, að málið gæti meira að segja átt hér meirihlutastuðning ef ráðherrann á yfir höfuð einhvern stuðning í stjórnarflokkunum, það kynni að duga til, finnst mér ámælisvert og ótækt að ráðherrann ræði ekki stöðuna við Alþingi. Það er kúnstugt að hafa hann hér þöglan á ráðherrabekknum meðan þessi umræða fer fram eins og gerðist hér, að vísu á ókristilegum tíma á alla mælikvarða milli tvö og þrjú í nótt.

En þetta er staðan og ég vildi gera grein fyrir því undir þessari umræðu að breytingartillaga er á leiðinni og fjallar um sömu þætti og þá sem eru lokaðir inni í ríkisstjórn þannig að hæstv. ráðherra á hér bandamenn í afstöðu sinni og getur þá verið með okkur í því að safna liði í þingsalnum og greiða málinu atkvæði við afgreiðslu fjárlaga.