145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom inn á mikilsverð atriði og mig langar fyrst að nefna frumvarp ráðherrans um að útvarpsgjaldið verði hið sama og það hefur verið. Það er rétt að ítreka að það er verið að tala um að útvarpsgjaldið sé hið sama þannig að það er ekki verið að tala um að tekjurnar muni aukast, það er sem sagt ekki verið að ganga á þá sjóði sem fyrir eru í ríkissjóði, ef svo má segja, þegar verið er að tala um þessar fjárveitingar til Ríkisútvarpsins.

Nú er þetta fast í ríkisstjórn eins og sagt er. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur ber hver ráðherra ábyrgð á sínum málaflokki og ég velti fyrir mér hvernig aðrir ráðherrar geta sagt við ráðherrann sem ber ábyrgð á málaflokki að hann geti ekki gert það sem hann ætlar. Ég hefði talið eðlilegra að það kæmi fyrir þingið og þá kæmi í ljós að ráðherrann hefði ekki stuðning þingflokka ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er alveg ljóst að hann hefur stuðning allrar stjórnarandstöðunnar við þetta mál, eða ég geri ráð fyrir, þannig að það er mjög undarlegt að hann sé tekinn slíku kverkataki í ríkisstjórninni og honum bannað að leggja frumvarpið fram sem líkur eru á að sé meiri hluti fyrir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því sem kom fram í andsvörum áðan, að ráðherranum sé (Forseti hringir.) ekki sætt ef þetta kemur í ljós.