145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að samkvæmt öllum venjulegum greiningum á pólitískri stöðu sem upp er komin er staða ráðherrans mjög veik. Það er ekki eins og þetta sé hvaða mál sem er á þingmálalista ráðherrans. Þetta er mál sem hann hefur talað mjög eindregið fyrir og má segja að hann leggi sig undir í því. Það er ekkert einfalt að sjá fyrir sér hvernig ráðherra á að koma standandi niður ef þetta verður kæft í ríkisstjórn og fundnar einhverjar leiðir til þess að klára ekki atkvæðagreiðslu hér eða halda því fram að það sé eitthvað annað á ferðinni en sama mál og það sem ráðherra er með.

Ég þekki það sjálf af veru minni í ríkisstjórn, þó að hún hafi verið á óvenjulegum tímum að mörgu leyti á síðasta kjörtímabili, að auðvitað kemur það fyrir að mál eru skoðuð í ríkisstjórn á milli funda, eðlilega. Þótt ekki sé um fjölskipað stjórnvald að ræða, eins og þingmaðurinn bendir á, skarast þingmál, frumvörp eða tillögur, sem koma frá ráðherrum á við málaflokka annarra ráðherra eða snerta þá með einhverju móti. Við getum nefnt ferðamál, málefni vatns, orkumál eða eitthvað slíkt sem koma sannarlega inn á borð fleiri ráðherra. Ég vil líka nefna mál eins og hval sem maður héldi kannski fyrir fram að væri málaflokkur sem heyrði undir umhverfisráðuneytið en hann heyrir undir sjávarútvegsmál. Það getur komið fyrir að ræða þurfi þessi mál á milli ríkisstjórnarfunda. Það er jafn ljóst að málið er á ábyrgð ráðherrans og hin eðlilega framvinda er að hann (Forseti hringir.) fái að koma málinu til Alþingis þar sem ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald.