145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hér komu fram mjög eindregnar óskir á öðrum tímanum í nótt þar sem óskað var eftir því að ráðherrar væru við umræðuna. Menntamálaráðherra kom hingað og þagði í klukkutíma. Hér var líka óskað eftir hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Hann kom ekki hingað og hann hefur ekki verið viðstaddur umræðuna á nokkurn hátt. Raunar hefur hann varla verið viðstaddur tilveruna ef því er að skipta vegna þess að hann hefur verið ósýnilegur og þegar hann hefur mætt hefur varla heyrst hvað hann hefur fram að færa.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, hefur sannarlega verið í felum og lái henni hver sem vill, því að svo virðist sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé ekki sá eini í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er skilinn eftir algjörlega einn með sín mál. Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir virðist vera í þeirri stöðu. Nú eru komin tvö og hálft ár af þessu kjörtímabili og hún virðist eiga í miklum vandræðum með öll mál, að koma þeim áfram eða koma þeim í gegnum ríkisstjórn eða áfram á nokkurn hátt. Það er sérkennilegt að það er ekki einu sinni svo að formaður eða forustumaður Framsóknarflokksins taki upp hanskann fyrir hennar mál eða fylgi þeim eftir á nokkurn hátt.

Við getum líka rifjað upp þrautagöngu hæstv. ráðherra ferðamála með náttúrupassann. Þegar það klúður kom fyrir Alþingi sneru allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér til veggjar á meðan hún upplifði sína pólitísku niðurlægingu sem hún er ekki enn risin upp úr í raun. Þessi sundrung og þessi vandræðagangur núverandi ríkisstjórnar verður kannski sérstaklega áberandi hér undir fjárlagafrumvarpinu, en það hefur verið einkenni ríkisstjórnarinnar frá fyrsta degi að þetta er ekki hópur af fólki sem stýrir landinu. Þetta er sundrað lið án forustu.