145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í þetta sinn fara stuttlega yfir breytingartillögur okkar í minni hlutanum er varða flóttamannamál og útlendingamál, málefni flóttamanna og aðstoð við innflytjendur.

Í breytingartillögum stjórnarandstöðunnar er gert ráð fyrir 200 millj. kr. í þetta verkefni. Annars vegar er gert ráð fyrir því að fjármunirnir fari til aðstoðar við innflytjendur, félagslegrar aðstoðar og er þar af leiðandi velferðarverkefni. Hins vegar verði veitt aukið fé til meðferðar umsókna um hæli hjá Útlendingastofnun.

Þetta er mjög mikilvægt umfjöllunarefni í ljósi umræðunnar sem spunnist hefur síðustu daga og vikur vegna tveggja albanskra fjölskyldna sem hafa verið mikið í fréttum og þeirrar afgreiðslu Útlendingastofnunar að synja þeim um dvalarleyfi og vísa þeim úr landi.

Ástæðan fyrir því af hálfu Útlendingastofnunar er sú að Albanir uppfylli almennt séð ekki skilyrði þess að teljast flóttamenn vegna þess að þeir sæta ekki ofsóknum í heimalandi og búa ekki við þær pólitísku aðstæður sem almennt er litið til við skilgreiningu á stöðu flóttamanna. Þeir eru vissulega í leit að betra lífi en það eru margir og til að öðlast rétt til hælis þurfa tiltekin efnisleg skilyrði að vera uppfyllt.

Það sem hefur hins vegar runnið okkur öllum til rifja í þessari umræðu er sú staðreynd að meðferð málsins hér á landi hefur tekið gríðarlega langan tíma, svo langan tíma að hér spunnust umræður í haust um það að börn þessara fjölskyldna nytu ekki skólagöngu. Ástæðan fyrir því hversu mikinn tíma meðferð málsins tók var sú að það væru ekki nægir fjármunir hjá Útlendingastofnun til að hraða meðferð umsókna.

Því verður sparnaður við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun til þess að skapa tengsl umsækjenda við landið og gera þar með erfiðara en ella að synja viðkomandi um hæli vegna þess að fresturinn sem líður skapar tengsl við landið og aðstæður sem gera það ómanneskjulegt að vísa fólkinu burt úr landinu. Þess vegna er svo mikilvægt að tryggja fullnægjandi fjárveitingar til meðferðar umsókna um hæli sem við vitum að mun fjölga á næstu mánuðum og missirum til þess að hraða afgreiðslunni sem mest má vera.

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í síðustu eða þarsíðustu viku þegar við fjölluðum um úttekt Ríkisendurskoðunar á fyrirkomulagi móttöku flóttafólks spurði ég fulltrúa innanríkisráðuneytisins sérstaklega um það hversu mikið væri hægt að gildandi lögum að hraða málsmeðferð, þó þannig að allir kærufrestir væru virtir. Svarið var að hægt væri að ljúka málum með algjörlega fullnægjandi kærufrestum og með því að áfrýjun úrskurða tæki eðlilegan tíma, á innan við mánuði.

Það hlýtur, virðulegi forseti, að vera markmið okkar að fólk sem hingað kemur og uppfyllir ekki skilyrði að teljast flóttamenn og á þar með ekki sjálfkrafa rétt á hæli fái skjótt úrlausn sinna mála. Það er því í okkar hendi að koma í veg fyrir að þau tengsl myndist milli umsækjenda og landsins sem geta síðan valdið því að það verður ógerningur annað en að veita umsækjendunum á endanum hæli.

Í Speglinum í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi var athyglisverð umfjöllun um þetta mál og meðal annars rætt við forsvarskonu móttöku flóttafólks í Noregi. Þar kom fram að Norðmenn veita fólki frá Albaníu ekki hæli og það er afar erfitt að fá þar dvalarleyfi af mannúðarástæðum fyrir albanskt flóttafólk. En það kom líka fram að flestar þær umsóknir sem þannig berast í Noregi eru afgreiddar á innan við 48 klukkustundum.

Hér held ég að sé umhugsunarefni fyrir okkur hvort við getum hraðað málsmeðferð enn frekar en samt gætt að öllum réttindum fólks. Forsenda fyrir því er að stjórnvöld séu tilbúin að verja fé til þess að auka málshraða. Hinn valkosturinn er að við fáum fleiri og fleiri umsækjendur sem ekki uppfylla skilyrði til þess að teljast flóttafólk. Þeir eru hér lengi og við berum auðvitað ábyrgð á því að fólkið fái þá eitthvert skotsilfur og húsnæði með einhverjum hætti. Allt kostar það peninga. Síðan verði meiri og meiri líkur á því að þegar loksins kemur að afgreiðslu málsins hafi fólk myndað þau tengsl við landið að ómannúðlegt sé að reka það úr landi. Þannig geta auknar fjárveitingar til að auka málshraða og fjölga afgreiðslum verið til að spara í málaflokknum og draga úr því að við þurfum að veita hæli af mannúðarástæðum þeim sem ekki teljast flóttamenn í þröngum skilningi og höfum þá meira svigrúm og fleiri pláss fyrir flóttafólk sem raunverulega er að flýja ógn og hörmungar og skelfingar.

Ég sakna þess mjög í fjárlagafrumvarpinu að sjá enga vitræna efnislega umfjöllun um þetta og að engin tilraun sé gerð til að meta það hver hagur yrði af því ef við mundum búa til fjárlagalið sem væri ófyrirséð vegna flóttamannamála upp á 100 millj. kr. sem Útlendingastofnun gæti gengið í til þess að vinna málin hraðar þannig að þessir löngu biðhalar þyrftu ekki að myndast og fólk fengi skjóta og örugga afgreiðslu sinna mála. Þjóðin mundi öll hagnast á því. Við mundum forgangsraða í þágu þeirra sem eru í mestri þörf með þeim hætti og greiða fyrir því að flóttafólk sem er í raunverulegri þörf fyrir hæli fái skjóta og góða afgreiðslu.

Ég ætla síðan að nefna lauslega hinn þáttinn í þessari tillögu sem felst í auknum fjárveitingum til þess að auðvelda aðlögun innflytjenda. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það hversu mikilvægt það er að fé sé til reiðu til að hjálpa fólki að aðlagast íslensku samfélagi, læra íslensku og koma sér fyrir hér. Þetta hefur verið vanræktur þáttur af okkar hálfu en það er óskynsamlegt að vanrækja þetta þjóðþrifaverkefni.