145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sem tekur á mjög áberandi máli um þessar mundir í stjórnmálaumræðunni, þ.e. málefnum hælisleitenda og Útlendingastofnunar.

Hv. þingmaður benti á nauðsyn þess að aukið fjármagn verði sett inn í þennan málaflokk til þess að hægt sé að standa betur að málum. En það sem ég kom að í ræðu minn í gær og langar að reifa við hv. þingmann er sú staðreynd að þessi langa fjárlagaumræða sem við eigum er löng vegna þess að það eru pólitískar áherslur að birtast í fjárlögum sem hafa ekki verið samþykktar hér á þingi, mál hafa ekki verið lögð fram. Ég nefndi í gær samgönguáætlun, áætlun um þróunarsamvinnu. Ég nefndi mál sem við höfum ítrekað reifað, sem eru stefnubreytingar í málefnum framhaldsskólanna, sem birtast bara í fjárlögum. Ég get nefnt dæmi á borð við ýmsar landshlutanefndir eins og norðvesturnefndina nýju. Verið er að taka pólitískar ákvarðanir sem birtast eingöngu í fjárlögum. Það er ekki stefnumörkun sem fer fram. Það er ekki umræða sem fer fram á þinginu til þess að þar sé tekist á um álitamálin.

Í þeim málefnum hins vegar sem hv. þingmaður nefndi hefur farið fram stefnumótunarvinna og þverpólitísk nefnd um ný útlendingalög sem hafa þó ekki verið lögð fram enn þá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann telji þetta lýsa stjórnsýslunni. Þar liggur fyrir stefnumörkun. Hún birtist hins vegar ekki. Hennar sér ekki stað með fullnægjandi hætti í fjárlagafrumvarpinu á meðan önnur stefnumörkun hefur ekki verið kláruð og þar er verið að mjatla út peningum í ýmsar áttir án þess að stefnumörkun hafi verið lokið.

Ég hef áhyggjur af þessari þróun, herra forseti. Ég tel að við séum að stefna í kolvitlausa átt. Við erum að samþjappa umræðu um risavaxin pólitísk álitamál í eina umræðu um fjárlög þannig að eðlilega verður fókusinn dreifður og við náum því ekki að upplýsa almenning með fullnægjandi hætti um þau álitamál sem eru uppi.