145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið grátbroslegt í þessu samhengi að greining rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins voru að því er varðaði stjórnsýslu og starfshætti löggjafans í þá veru að ráðherraræði hefði verið of mikið og skortur á virðingu fyrir lögbundnum ferlum.

Hér sitjum við nú með ríkisstjórn sem beinlínis skautar fram hjá öllum lögbundnum ferlum. Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað dregur þetta úr tiltrú á stjórnmálum. Þetta eykur líka átakasækni í stjórnmálunum því að við erum þá læst í átökum um fjárlög sem eru eina efnið, en þar myndast pakkadíll þar sem frekustu öflin innan stjórnarflokkanna ráða og jafnvel hófsemdaröfl sem hefðu birst, eins og í tilviki Ríkisútvarpsins, gott dæmi, ef menn færu eftir almennum lögbundnum leikreglum eru ofurliði borin.

Við sáum dæmi um það á síðasta kjörtímabili að þá voru afgreidd mál með mótatkvæðum ráðherra en með meiri hluta þings. Það hefur aldrei sést á þessu kjörtímabili. Valdaklíkur ríkisstjórnarflokkanna ráða pakkanum og þar eru skærustu leiðarljósin formaður og varaformaður fjárlaganefndar sem eru hinir hugmyndafræðilegu leiðtogar ríkisstjórnarinnar og stilla upp meginlínunum og koma þaðan að dæma lifendur og dauða, ákveða hvernig hús skuli byggð, ákveða hvernig ríkisstofnanir skuli starfa án nokkurrar lagaheimildar eða sérstaks umboðs til slíkra verka.

Þetta er öfugþróun. Þetta er neikvætt á alla lund. Ég held að við ættum að hugleiða það hvort umboðsmaður Alþingis gæti reynst okkur stoð að þessu leyti, að knýja stjórnvöld til að fara að lögbundnum ferlum.