145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu um málefni flóttamanna og innflytjenda svona almennt. Sú umræða hefur verið mjög áberandi í þjóðfélaginu að undanförnu vegna stöðu þeirra tveggja albönsku fjölskyldna sem komu hingað til lands og sóttu um dvalarleyfi en flokkuðust ekki undir flóttamenn og var vísað úr landi.

Mér finnst almennt að þetta sé heilt yfir nokkuð sem þarf virkilega að taka til endurskoðunar, og líka almennt í löggjöf okkar Íslendinga gagnvart því fólki sem ekki hefur stöðu flóttamanna en hefur áhuga á því að komast til landa eins og Íslands og bæta kjör sín og búa við meira öryggi, betri heilbrigðisþjónustu og annað því um líkt. Þessar fjölskyldur eru með langveik börn og það er ekki skrýtið að þær sækist eftir því öryggi sem fylgir því að vera á Íslandi.

Undanfarin ár og áratugi hefur erlent verkafólk oft og tíðum komið hingað til Íslands og hjálpað okkur við að halda atvinnulífinu gangandi, en umsóknarferli þeirra hefur alltaf verið á forsendum atvinnulífsins.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir það. Telur hv. þingmaður að taka þurfi það til endurskoðunar og eins þær forsendur sem fyrir því lágu og voru réttlætanlegar á sínum tíma? Hvað hefur breyst? Eigum við ekki að stokka það allt upp og bjóða það fólk velkomið sem vill vera hér sem virkir þátttakendur í atvinnulífi okkar, menningu og samfélagi?