145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bæta einhverju inn í þessa umræðu. Ég vona að ég verði dropinn sem fyllir mælinn í umræðunni um fjárlög 2016 og henni ljúki sem fyrst. Ég held að það sé kominn tími á það. Umræðan hefur verið löng og ítarleg.

Ég ætla að bæta inn nokkrum punktum frá mér. Það eru nokkur atriði sem mér finnst mikilvæg að þessu sinni. Ég ætla þó reyndar ekki að fara yfir öll stærstu málin. Það er óþarfi að endurtaka þau öll í löngu máli úr þessum stól.

Ég held að fjárlög ársins 2016 séu mikilvægustu fjárlög ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Þetta eru næstsíðustu fjárlögin fyrir kosningar. Það er því mikilvægt að núna takist vel til, eins og auðvitað jafnan áður. Ég verð að segja að ég er afar sáttur við mjög marga hluti í fjárlögunum en auðvitað ekki allt, enda spanna fjárlög alla ríkishítina og tekur um það bil sjö klukkustundir að greiða atkvæði um þau. Hvernig væri það ef maður væri sammála hverjum einasta lið í þeim mikla bálki? Mér finnst að fjárlaganefnd og þeir sem þangað hafa komið hafi staðið sig vel. Þeir hafa unnið mikla vinnu og lagt mikið á sig og skilað til okkar fjárlögum sem eru góð.

Það er mikilvægast í þessu samhengi að minnast þess að þetta eru þriðju fjárlögin í röð sem við leggjum fram án halla. Það er góður árangur. Sú stefna var mörkuð strax í upphafi að skila hallalausum fjárlögum. Vissulega hafa margir hlutir gengið okkur í hag frá því að við tókum við ríkisstjórn 2013 og þess vegna hefur svigrúmið aukist til ýmissa hluta. Með stöðugleikafrumvarpinu og samkomulaginu við slitastjórnir föllnu bankanna myndast svigrúm til niðurgreiðslu skulda sem verður þegar upp er staðið vonandi besta kjarabótin fyrir fólkið í landinu, þegar skuldir þjóðarbúsins lækka jafnvel um hundruð milljarða og vaxtagreiðslur ríkisins og ríkissjóðs lækka úr kannski 70–80 milljörðum á ári og niður í kannski 30–35 milljarða. Við sjáum í hendi okkar hvaða gríðarlegu áhrif það mun hafa fyrir ríkisreksturinn að tala sem nálgast rekstur Landspítalans á einu ári bætist við í næstu og þarnæstu fjárlögum og verður þá úr meira að spila fyrir heilbrigðiskerfið og menntakerfið og þá mikilvægu þætti sem ríkissjóður stendur undir á hverju ári og alla tíð auðvitað.

Mér finnst líka mikilvægt að hugsa til þess á þessari stundu að erfiðri kjarasamningalotu og langri lauk farsællega að mínu mati. Launahækkanir voru töluverðar. Ég vona að við náum að halda þjóðarskútunni á réttum kili og að við missum ekki tökin á verðbólgunni og að ekki komi til víxlhækkana verðlags og launa. Stefnt er að því að lægstu laun í landinu verði um 300 þús. kr. árið 2018. Það er það markmið sem sett var í upphafi samninganna. Ég held að mjög margir hafi átt inni launahækkanir. Ég er fyrst og fremst með í huga fiskvinnslufólkið sem ég barðist svolítið mikið fyrir. Þar urðu verulegar kjarabætur og kannski voru stærstu kjarabæturnar þær að allt fiskvinnslufólk fær nú borgaðan bónus þannig að hjá mjög mörgum var þetta gríðarlega mikill áfangi í síðustu samningum. Bónus var ekki greiddur hjá öllum fiskverkendum en hann er kominn inn núna sem mælist ekki inn í hækkunina, en ætli lágmarksbónus sé ekki eitthvað á bilinu 180–200 kr. á klukkustund. Það er gríðarlega mikil launahækkun hjá því fólki sem hefur staðið undir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar um árabil.

Þá hefur hagur elli- og örorkulífeyrisþega verið bættur enn frekar. Bætur hækka um 9,7% 1. janúar nk. og þá hafa bætur hækkað um 17,1% frá ársbyrjun 2014. Á sama tíma hefur samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef verðlag hækkað um 7,1%. Þetta er vitaskuld mikil kjarabót fyrir þetta fólk og ekki síður fyrir alla í landinu á launamarkaði. Þessi kjarabót kemur vissulega öllum heimilum landsins til góða og sjálfsagt að halda því til haga að kjörin í landinu eru að batna. Ég held að við getum öll glaðst yfir því. Það er mikilvægt að þannig verði haldið áfram á sömu braut. Ég velti fyrir mér þegar ég horfi yfir vinnumarkaðinn, sem ég er sérstakur áhugamaður um, ég tala nú ekki um fiskvinnsluna þar sem tæknin er orðin svo gríðarleg, eins og um daginn þegar ég heimsótti eitt af glæsilegri fyrirtækjunum í Grindavík, Vísi, að ef maður ætlaði aftur að taka fram fiskvinnsluhanskana og fara að vinna í fiski þá þyrfti maður líklega að taka kúrs í Tækniskólanum áður. Slík er tæknin orðin. Það er gríðarlega mikilvægt í okkar samfélagi að nýsköpunin verði í skjóli öflugra og sterkra fyrirtækja í sjávarútvegi á landsbyggðinni. Við þurfum þess vegna að gæta að því að þau hafi það svigrúm sem þau þurfa til uppbyggingar og skattar og annað slíkt verði hóflegt. Vil ég þá sérstaklega nefna tryggingagjald í því sambandi. Eins og mörgum er í fersku minni var skipt út tryggingagjaldslækkun um áramótin og lækkun tekjuskatts á milliþrepið í kjarasamningum í sumar. Það var verulega mikið mál að klára samningana með því. Ég hef heyrt úti í samfélaginu að sérstaklega þeim sem eru á lægri launum finnist að þeir hefðu átt að njóta einhvers af því.

Við erum að tala um að þeir lægst launuðu í landinu séu kannski 1% af vinnumarkaðnum. Það eru ekkert mjög margir á vinnumarkaði á lægstu launum, en flestir njóta þeir einhvers konar bónusa eða aukagreiðslna sem lífeyrisþegar njóta til dæmis ekki. Þrátt fyrir verulegar kjarabætur lífeyrisþega er sá hópur fólks enn afar illa settur og flóknar skerðingar halda lífeyrisgreiðslum við lægstu mörk. Ég tel mjög mikilvægt að nú þegar verði þessi hópur greindur og metið hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir og eyða fátæktargildrum. Lífeyriskerfið er jöfnunarkerfi en það er mikilvægt að við jöfnum kjör þeirra innbyrðis enn frekar.

Ég hef sagt og segi enn að við verðum að bæta kjör þessa hóps frekar. Við höfum tækifæri til þess með því að greiða þeim sem minnst bera úr býtum afturvirkan lífeyri frá 1. maí eða júní sl. Ég vil koma að slíkri vinnu ásamt fulltrúum lífeyrisþega. Ég tel mig skulda þessu fólki réttlátar kjarabætur eins og ég fékk sjálfur fyrir nokkrum dögum. Að mínu mati getum við enn látið þann draum þessa fólks rætast um léttbærari jólahátíð. Ég trúi að við náum saman um að ljúka þessari umræðu með sóma og stöndum vörð um okkar verst settu bræður og systur. Ég endurtek það sem ég hef sagt áður í þessum stóli: Við verðum dæmd af framkomu okkar við eldri borgara þessa lands.

Heilt yfir er ég sáttur við hvernig okkur hefur tekist að koma mörgum góðum málum til leiðar. Fjárlaganefnd hefur stutt við rekstur góðra mála í þriðja geiranum og það er skylda okkar að styðja við þau verkefni af myndarskap. Ég ætla að minnast á örfá þeirra. Hlaðgerðarkot og Krýsuvík eru samtök sem eru rekin af þriðja geiranum. Það eru meðferðarheimili fyrir áfengissjúklinga. Þessi heimili eru rekin af áhugafólki og gríðarleg aðsókn að þeim og margra mánaða biðlistar. Ekki er óalgengt að á hverju ári látist þrír til fjórir sem eru á biðlista eftir að komast í Krýsuvík. Það er talandi dæmi um alvarleika málsins og hvað það er mikilvægt fyrir okkur að styrkja starfsemina sem er rekin úti á Reykjanesi af gríðarlegum dugnaði. Ég hef ásamt fleiri þingmönnum og þá sérstaklega hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni farið þangað og hitt þetta fólk og við höfum kynnt okkur starfsemina og lagt fólkinu lið í ýmsum málum. Það er gott að finna að það er metið. Sama er með Hlaðgerðarkot í Mosfellssveit. Þar er öflug starfsemi á vegum Samhjálpar. Þar eru 30 vistmenn á heimili sem ríkið borgar með 20 rúm og að jafnaði eru 70 á biðlista. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að standa vörð um þessa starfsemi, svo ég tali nú ekki um móðurskipið SÁÁ á Vogi sem er sjúkrahús sem er í fremstu röð í heiminum miðað við þann árangur sem þar er náð. Hinir tveir sem minnst er á í þessari upptalningu eru líka aðilar sem fara óhefðbundnari leiðir og ná vissulega árangri. Hvað þennan sjúkdóm varðar er alveg ljóst að það er misjafnt hvað hentar þeim sjúka. Ég held að við getum verið afar stolt af því þegar við lítum til baka að hafa sinnt þessum tveimur stofnunum og mörgum öðrum sem við höfum lagt lið.

Mig langar líka aðeins að ræða um ráðstöfunartekjur og skattlagningu ríkisstjórnarinnar. Við höfum aukið ráðstöfunartekjur landsmanna í nokkuð grófum útreikningi um 122 þús. millj. kr., þ.e. 122 milljarða, þegar allt er til tekið.

Sumt af því kemur aftur og aftur en í heildina gæti þetta litið svona út:

10 milljarða auðlegðarskattur var látinn fjara út eins og fyrri ríkisstjórn hafði tekið ákvörðun um. Það var og er vissulega ósanngjarn skattur, sérstaklega á marga eldri borgara sem áttu og bjuggu í stórum húsum og höfðu ekki mikið lausafé en þurftu að borga gríðarlega háa skatta vegna eignar sinnar í þessum húsum. Sá skattur var skattlagning á eignir sem margoft var búið að borga skatta í rauninni af.

Það er búið að afnema 2 milljarða raforkuskatt. Það kemur öllum heimilum landsins til góða.

Eins og ég minntist áður á kemur 15 milljarða skattalækkun vegna kjarasamninga millitekjufólks til framkvæmda á næsta ári. Það var líka gríðarlega stórt innslag í kjarasamninga ársins. Ég, sem hef frekar verið talsmaður þess að skattar væru hóflegir, gleðst í sjálfu sér yfir því að þessum áfanga er náð. Við munum örugglega á næstu árum skoða hvaða leiðir eru til frekari skattalækkana sem koma heimilunum til góða.

Tryggingagjaldið hefur verið lækkað um 3 milljarða. Það er ekki mikið, ekki jafn mikið og við ætluðum okkur. Nú hefur verið mjög mikil eftirspurn eftir því hjá atvinnulífinu að lækka tryggingagjaldið en eins og hér hefur áður komið fram, og margoft örugglega í umræðunni, var skipt á því og þeim 15 milljörðum sem fóru í millitekjuhópinn. Ég hefði samt viljað skoða hvort ekki mætti fara í þá vegferð nú þegar að skoða hvort Atvinnuleysistryggingasjóður þyrfti að fá allar sínar tekjur inn þegar atvinnustig í landinu er svona gott, þegar eftirspurnin eftir fjármagninu í þeim sjóði er ekki jafn mikil og var, hvort það mætti seinka greiðslum í þann sjóð um einhvern tíma til að lækka tryggingagjaldið af því að ríkissjóður getur ekki tekið þetta allt saman á sig í einu. Það er bara ein af þeim hugmyndum sem fólk þarf auðvitað að ræða. Mér finnst mikilvægt að við skoðum þær leiðir hvernig við getum komið til móts við fyrirtækin í landinu en auðvitað getur ríkissjóður ekki tekið á sig allar skattalækkanir miðað við það sem búið er að gera áður. Svo eru endalausar kröfur um aukin framlög og bættan hag heimilanna. Þar er til dæmis Fæðingarorlofssjóðurinn sem greiðist af tryggingagjaldinu. (Gripið fram í.) Um leið og við erum að gefa í þar er líka erfitt að lækka tryggingagjaldið í leiðinni þannig að við getum ekki bæði gefið og fengið í því. Við þurfum að skoða það.

Á næsta ári mun afnám tolla af öllum vörum nema matvöru skila heimilunum 6 milljörðum.

Skuldaleiðréttingin var 80 milljarðar (Gripið fram í.) og 6 milljarðar á ári er sparnaðarleið fyrir unga fólkið og þá sem vilja leggja til hliðar til að greiða inn á lán sín, inn á höfuðstólinn.

Það er með sanni hægt að segja, án þess að ýkja neitt, að 122 milljarðar hafa komið til baka og skilað sér í bættum hag heimilanna, með lækkun skulda, lækkuðum vörugjöldum sem koma reyndar til móts við örlitla hækkun á virðisaukaskattinum og síðan tollalækkanir og annað sem ég hef talið hér upp. Í heildina litið erum við að skila töluverðu til baka til þjóðarbúsins, til heimilanna í landinu, sem er auðvitað markmið okkar allra. Ég held að við getum verið stolt af því þó að eðlilega komi fram í þessu fjárlagafrumvarpi mismunandi lífsskoðanir okkar allra. Það er eðlilegt.

Við ætlum vissulega að bæta heilbrigðis- og menntakerfið á næstu árum og auka almennt velmegun í landinu. Við erum öll sammála um það. Núna þegar svigrúmið er að aukast munum við sýna það. Ég held að við séum öll óþreyjufull eftir þeim tíma og eigum eðlilega að vera það. Við þurfum að halda áfram að forgangsraða fyrir heilbrigðiskerfið og fyrir menntakerfið og þá sem minna mega sín í samfélaginu.

Ég er mikill atvinnulífsmaður og er mjög umhugað um uppbyggingu atvinnulífsins. Það sem eru mikilvægustu þættirnir í því í mínum huga er að skapa fjölbreytt og vel launuð störf. Við Íslendingar höfum gríðarleg tækifæri í auðlindum okkar. Hafið í kringum landið er fullt af fiski sem skapar gríðarleg verðmæti. Það er mikilvægt að við stundum sjálfbærar veiðar og nýtum aflann á besta hátt sem mögulegt er. Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan um nútímafiskvinnsluhús að maður þyrfti í rauninni að fara í Tækniskólann til að geta byrjað aftur að vinna þar. Slík er tæknin. Við sjáum fram á að framleiða neytendapakkningar í stóru frystihúsunum og flytja ferska vöru beint á markað. Slík eru tækifærin. Samspil útgerðar og vinnslu og markaðar er trúlega mikilvægustu hlekkirnir í þeirri keðju sjávarútvegsins að auka velmegun og verðmætasköpun í þeim geira. Alla nýsköpunina sem blómstrar og sprettur úr þessum frjóa jarðvegi höfum við séð í Grindavík, á Ísafirði, í Vestmannaeyjum, Höfn og víðar. Stóru fyrirtækin þar eru uppspretta mikillar gerjunar fyrir minni fyrirtæki.

Ferðaþjónustan er á bullandi siglingu. Þar koma tækifærin á færibandi en vissulega þurfum við Íslendingar að hafa meiri tekjur af ferðamanninum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gefumst ekki upp á því að rukka eitthvert auðlindagjald af hverjum ferðamanni sem kemur til landsins, eitthvert fast krónugjald. Það er búið að tala mikið um það í þessum sal og mér finnst að við megum ekki gefast upp á því. Það er gríðarlega mikilvægt. Það þekkist víðast hvar annars staðar í löndum heimsins að ferðamenn greiði sérstakt gjald og við þurfum að koma því á. Mér finnst fara allt of mikill tími í að rífast um hvers konar gjald þetta eigi að vera. Þetta er einfalt mjög víða. Við höfum skattkerfi til að innheimta þetta og það þarf ekki að vera flókin umgjörð í kringum það. Það er kannski of langt mál til að fara út í hér í þessari stuttu ræðu minni en ég legg mikla áherslu á að við finnum leiðir og séum ekki föst í að rífast um formið heldur reynum að finna sameiginlegan farveg til að auka tekjur þjóðarinnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Við höfum líka stóriðju í landinu sem hefur skapað þeim sem þar vinna gríðarlega miklar tekjur og góð laun og í skjóli hennar hefur líka skapast töluverð nýsköpun.

Allt þetta myndar eina sterka keðju sem er grundvöllur að velmegun þjóðarinnar. Við þurfum að standa vel um hana saman og hlúa að atvinnulífinu svo að við sköpum hér í landinu mannsæmandi laun og þjónustu, eins og ég hef áður sagt.

Ég ætla enn og aftur að þakka fjárlaganefnd og þeim sem hafa komið að þeirri miklu vinnu sem er undir í fjárlögunum 2016. Þetta er mikil og vandasöm en vanþakklát vinna eins og við höfum heyrt á síðustu dögum.

Ég hef kannski tekið það of hátíðlega þegar við vorum beðin um að vera málefnaleg í Alþingisskólanum áður en ég hóf feril í þinginu en ég hef tekið þann pólinn í hæðina að tala ekki meira en ég þarf og er ekkert að koma af neinum óþarfa í þennan stól. Ég hef ekki náð þeim lægðum að gera lítið úr störfum annarra eða þekkingu þeirra. Það er ekki minn stíll, en of margir eru á þeim nótum. Ég held að við ættum að hætta því og tala af virðingu hvert við annað í þessum sal. (Gripið fram í.) Það gera það sem betur fer allflestir. Í mínum huga eru allir að gera sitt besta í starfi sínu en við þurfum að huga að orðstír Alþingis og okkar þingmanna á þann hátt og með því að sýna fólkinu í landinu virðingu í öllum okkar störfum farnast okkur vel.