145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara svo það sé sagt tel ég reyndar ekki að ríkisstjórnin sé himnasending, en mér finnst ánægjulegt að heyra og finnst það skynsamleg nálgun hjá hv. þingmanni sem hann kom hérna inn á í svari sínu. Þetta er auðvitað ekki svona svart og hvítt eins og mér finnst sumir stjórnarliðar láta.

Ég hef mikið gagnrýnt skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar. Mér fannst það vera aðgerð sem var allt of dýr og náði í rauninni ekki því takmarki endilega að hjálpa þeim sem verst voru staddir og gríðarlega miklir peningar fóru í þá aðgerð. Þetta eru einir 90 milljarðar plús. Ég hefði viljað verja þeim með öðrum hætti, sérstaklega nú þegar kallað er eftir að við þurfum að byggja upp innviði. Við horfum upp á Landspítalann, samgöngur og hvað veit ég, lækka líka skuldir ríkissjóðs sem er mjög mikilvægt. Mér fannst það vera vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi, ég vil næstum segja kaupa fólk til fylgilags við ríkisstjórnina út á þetta kosningaloforð. (Forseti hringir.) Hvað segir hv. þingmaður um það?