145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:08]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir góða og skilmerkilega ræðu. Mig langar til að nota tækifærið til að spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist taka undir breytingartillögu frá minni hlutanum sem er samhljóða áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014. Þar er til að mynda sagt að umboðsmaður Alþingis þurfi á um það bil 15 millj. kr. aukafjárveitingu að halda til að geta sinnt frumkvæðisrannsóknum. Frumkvæðisrannsóknir eru grundvallaratriði í tengslum við það að umboðsmaður geti sinnt starfi sínu sjálfstætt og haft frumkvæði að því að rannsaka mál í stað þess að þurfa einvörðungu að sinna þeim málum sem koma á borð hans. Mig langar að spyrja um viðhorf hv. þingmanns varðandi þetta og hvort hann taki undir þessa breytingartillögu.