145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur gengið fram á völlinn og lýst yfir stuðningi við þær tillögur sem minni hlutinn lagði fram varðandi fjáraukann um afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja. Ég ásamt öðrum og örugglega hópum aldraðra og öryrkja geri þá kröfu til hv. þingmanns að hann svari því skýrt hvort hann muni styðja endurflutta tillögu í þessum efnum við 3. umr. Hann skuldar þjóðinni svör við því.

Það hefur komið fram að blússandi góðæri sé í samfélaginu og maður spyr sig og ég spyr hv. þingmann: Eiga aldraðir og öryrkjar alltaf að vera einhver afgangsstærð? Menn lofa öllu fögru og tala til þessara hópa þannig að það komi nú röðin að þeim, en þegar á reynir er forgangsröðunin alltaf í þágu annarra en þeirra sem minnst mega sín. Menn halda áfram að kaupa sér velvild eins og Sjálfstæðisflokkurinn með loforði (Forseti hringir.) um að seinna komi betri tími með blóm í haga. En hvenær er það? Hefur hv. þingmaður barist fyrir þessum sjónarmiðum sínum innan þingflokks sjálfstæðismanna? Eða er hann eini maðurinn sem hefur þessar skoðanir?