145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vona að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi gert Birgittu Jónsdóttur viðvart um það að hún hyggist taka málið upp með þessum hætti vegna þess að mér finnst að allir eigi rétt á því að svara fyrir sig. Það er ágætt að hafa varðhunda en hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur engan slíkan í þingsal núna.

Ég kem þó ekki upp til þess að taka þátt í þeim orðaskiptum heldur vil ég vekja eftirtekt á öðru. Ég gat ekki skilið hv. þm. Ásmund Friðriksson öðruvísi en svo að hann væri að tjá þinginu að það væri verið að gera tillögu þar sem menn væru að freista þess að koma til móts við málflutning hans og stjórnarandstöðunnar varðandi aldraða og öryrkja. Þetta er það mál sem hefur orðið að mestu bitbeini. Ef það tekst að ná sátt um þetta mál mun þingstörfum vinda miklu greiðar fram en ella. Ég legg til að þessum fundi verði frestað og að tillagan sem hv. þingmaður segir að verið sé að vinna verði unnin í samráði við stjórnarandstöðuna þannig að það sé einfaldlega hægt að ljúka málum hér í góðri sátt. Það er það eina sem við erum að biðja um.