145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru sannarlega góð tíðindi sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson færði þinginu, alla vega viljum við góðviljað fólk skilja þau sem svo, um að menn væru að semja sig niður á einhverja tillögu til að koma til móts við kröfur um bætt kjör aldraðra og öryrkja og að kjör þeirra verði leiðrétt frá 1. maí. Mér heyrðist hv. þingmaður segja „eða 1. júní“ á síðasta ári. Það er gott ef menn eru að reyna að semja slíka tillögu og henni yrði vissulega fagnað þótt það næðist ekki nema frá 1. júní, en við gerum samt kröfu um 1. maí. Þess vegna vil ég taka undir (Forseti hringir.) orð flokksbróður míns og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég held að skynsamlegt sé að fresta fundi á meðan þetta er kannað nánar.