145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það eru þessi þrjú stærstu mál sem við höfum rætt hér, stjórnarandstaðan, sem við viljum eiga meira og betra samtal um við stjórnarliða. Við höfum þess vegna óskað eftir að málið fari núna til fjárlaganefndar til að vita hvort einhver flötur sé á því og fundi verði frestað. Það þekkja nokkrir þingmenn hér inni sem eru eldri en tvævetur í pólitík og hafa verið á Alþingi í nokkur ár að þetta er tími þegar fólk sest niður og reynir að leita lausna. Ég veit ekki hvort fólk telur heppilegast að geyma það fram á Þorláksmessu eða gamlársdag eða hvað. Það eru auðvitað ákveðin mál sem þarf að koma í gegn. Ég mundi segja að það væri þinghaldinu fyrir bestu að fólk bryti odd af oflæti sínu og settist niður í leit að einhvers konar sáttfýsi, ég vil ekki endilega tala um samninga heldur bara að vita hvort hægt sé að finna einhvern flöt á því. Það hefur ekki beinlínis staðið til boða eftir því sem mér skilst, en ég sit svo sem ekki þingflokksformannafundi og veit þar af leiðandi ekki (Forseti hringir.) allt um það. En eins og ég segi, hér er fólk ekki alveg blautt á bak við eyrun, sérstaklega ekki þingflokksformenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og þau vita að þetta er tíminn sem þarf til að setjast niður og tala saman.