145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kemur hérna alltaf upp eins og einhver kórdrengur og talar niður til okkar í stjórnarandstöðunni um að við séum í málþófi þegar við erum að ræða fjárlög fyrir árið 2016. Það er svo langt í frá. Við höfum bara miklar skoðanir og miklar meiningar í þessu máli sem okkur finnst eðlilegt að sé talað um og skili sér út í samfélagið, hvernig hægri stjórnin býr að hópum sem við ættum að hugsa vel um, öldruðum og öryrkjum, og svo margt annað. Það er sorglegt til þess að vita að þessir ungu menn, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og hv. formaður þingflokks Framsóknarmanna, hafi ekki meiri skilning en þetta á kjörum aldraðra og öryrkja, að þeir séu alltaf einhver afgangsstærð sem megi ýta til hliðar og annað gangi fyrir. Það væri fróðlegt að vita hvort innan raða þingflokks framsóknarmanna sem rúmar margt ágætisfólk heyrist engar raddir í þá átt eins og er þó innan þingflokks sjálfstæðismanna að vilja gera eitthvað betur. Eru menn í þingflokki (Forseti hringir.) framsóknarmanna virkilega orðnir svo harðsvíraðir? Öðruvísi mér áður brá, einhvern tímann var talað um félagshyggjuflokkinn Framsóknarflokkinn.