145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vegna orða nokkurra stjórnarliða um hvort verið sé að vinna eitthvert tilboð eða ekki tilboð vil ég segja fyrir mitt leyti: Ég held að stjórnarandstaðan sé ekki að bíða eftir neinu tilboði frá ríkisstjórninni. Við erum að bíða eftir samtali og sáttaumleitunum, og að reyna að komast að niðurstöðu, eins og yfirleitt og ég held að ég leyfi mér að segja alltaf á þessum árstíma hefur verið gert þegar sér undir lok þingstarfa. (Gripið fram í.) Samtal og sátt, tala okkur til niðurstöðu, ég held að það sé tiltölulega auðvelt en þráhyggja stjórnarliða stoppar það.

Ég vildi andmæla einu, vegna þess að borgarstjórinn í Reykjavík getur ekki svarað fyrir sig hér. Ég tók eftir því og það er sennilega samkvæmt lögum frá Alþingi að Reykjavíkurborg er að gjaldfæra 14 milljarða vegna aukinna lífeyrisgreiðslna vegna hækkunar launa á árinu. Það er hins vegar ekki gert hjá ríkissjóði. Alþingi setur sveitarfélögunum önnur skilyrði. Hér í kafla í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er talað um þetta og það látið eiga sig. Það er talað um að þetta gæti orðið gjaldfærsla upp á (Forseti hringir.) hvorki meira né minna en 126 milljarða kr. Ef það verður gert segir meiri hlutinn að það verði langumfangsmesta gjaldfærsla í ríkisreikningi þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) Meiri hluti fjárlaganefndar hefur stoppað við þetta mál og lætur það eiga sig. Mér finnst það óásættanlegt. Þetta er í heildarmyndinni og þarf að koma fram.