145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það berast óljósar fregnir af því að ríkisstjórnin sé eitthvað að átta sig á því að það gangi ekki alveg að fara með fjárlagafrumvarpið óbreytt í gegnum umræðuna. En ég vil taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Við höfum lagt megináherslu á lífeyristryggingar, á Landspítala og Ríkisútvarpið. En ráðherrar þessara málaflokka, hæstv. menntamálaráðherra, hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, hafa ekki sést hér í umræðunni nema ef þeir hafa komið til að greiða atkvæði með lengri þingfundi. Þá hafa þeir verið á vaktinni. En þeir eru ekki á vaktinni til að fjalla um sína eigin málaflokka, málaflokka sem liggja undir skemmdum ef tillögur meiri hlutans ná fram að ganga. Ég óska því eftir að þessir þrír ráðherrar verði hér í umræðunni og sýni smáreisn og standi (Forseti hringir.) með sínum málaflokkum.