145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, við ættum að gera það, en við eigum hins vegar að gera það að mínu mati á þann hátt að aldraðir og öryrkjar hafi mannsæmandi laun til þess að taka þátt, og svo kemur tryggingakerfið auðvitað þarna inn í, hjálpartæki og annað slíkt. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og ég hef oft hlustað á bæði aldraða og öryrkja tala um það, að fullur virðisaukaskattur af lyfjum er mjög íþyngjandi, það er sannarlega rétt. Ég get líka tekið undir það, sem hv. þingmaður orðaði ágætlega, að Öryrkjabandalagið sé verkalýðsfélag öryrkja. Það er alveg rétt, alveg eins og Landssamband eldri borgara er verkalýðsfélag eldri borgara. Samningsaðilinn er hæstv. ríkisstjórn. Við sem sitjum í þessum sal, 63 þingmenn, erum hluti af því.

Hv. þm. Helgi Hjörvar komst ágætlega að orði þegar hann sagði að hæstv. forsætisráðherra væri í raun og veru formaður kjararáðs aldraðra og öryrkja. Það er það sem við erum að gagnrýna hér og það er það sem við erum að tala um, virðulegi forseti, að kjararáð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur komist að þeirri niðurstöðu að lægstu örorkubætur hafa hækkað um 10 þús. kr. á mánuði allt þetta kjörtímabil. Það er nú allt og sumt, eftir skatt. Það þýðir ekkert að tala um að það séu 17 þús. kr., eitthvað svoleiðis, þegar ríkið tekur allt til sín.

Þess vegna vil ég skjóta því hér inn, virðulegi forseti, að afturvirka hækkunin 2015, sem hvað mestar deilur eru um, á að kosta eina 6 milljarða, ef ég man rétt. En útgjöld ríkissjóðs vegna þess verða ekki nema 4,5 milljarðar í mesta lagi vegna þess að ríkið fengi skatt af allri þeirri viðbót sem þar kæmi inn, þannig að þetta er nú allt og sumt. Ef fjárlagaafgangur þessa árs verður 32–35 milljarðar, eins og ég spái, er sannarlega borð fyrir báru.

Við, sem þurftum að ganga þá óheillagöngu, þá vondu göngu að skerða bæði hjá öldruðum og öryrkjum og hækka skatta og gera hitt og þetta til að forða landinu frá gjaldþroti strax eftir hrun, (Forseti hringir.) sögðum þá að við mundum skila því til baka. Það er sannfæring mín að tala fyrir því (Forseti hringir.) hér vegna þess að nú er borð fyrir báru og við viljum skila til baka. Við viljum standa við þau loforð sem við gáfum.