145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:31]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo lengi lærir sem lifir. Það er hvergi að finna stafkrók um það í greinargerð með frumvarpi til laga um auðlegðarskatt frá miðju ári 2009 að auðlegðarskattur og gjaldeyrishöft séu lögð á og fylgist á einhvern hátt að. Ekki orð eða stafkrókur. Þetta er því í fyrsta skipti sem ég heyri þetta samband. Hvergi er nefnt í þeim dómi sem gekk í Hæstarétti slíkt samband. Því segi ég að það er hægt að koma með svona eftiráspeki og telja manni trú um að þetta sé sannleikur en ég held að svo sé ekki.

Ég skal ræða þennan auðlegðarskatt og ýmsa hvata til skuldsetningar og hömlur til að nokkur maður eignist nokkurn skapaðan hlut. En engu að síður fæ ég ekki svarið enn þá af hverju í ósköpunum þessi gallalausi skattur var ekki lagður á. Það er hvergi tæpt á göllunum í greinargerðinni. En nú kemur allt í einu í ljós að agnúar eru á honum. Ég hef bara aldrei heyrt þetta fyrr. Ég hélt að öll verk síðustu ríkisstjórnar hefðu verið gallalaus, þetta eru miklar játningar hér. En eins og ég segi, ég er engu nær. Ég er búinn að leggja fram hérna stóra spurningu og fæ svar í gjaldeyrishöftum. Ekki orð um það hjá hæstv. fjármálaráðherra sem lagði frumvarpið fram. Ég held að ég hafi þetta ekki lengra að sinni.