145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að vera hreinskilinn og segja að mér líkaði vel þegar hv. þingmaður sagði að það þyrfti að bæta hjá þeim sem væru virkilega í þörfinni. Um það snýst málið, þar er ágreiningurinn. Við erum að tala fyrir þá sem eru virkilega í þörfinni. Við erum að tala fyrir þá sem hafa fengið 10 þús. kr. hækkun á öllu kjörtímabilinu og fengu 4 þús. kr. hækkun eftir skatt 1. janúar síðastliðinn. Ég ætla ekki að þylja þetta aftur með virðisaukaskatt og aðrar hækkanir sem dundu yfir 1. janúar síðastliðinn. Í erfiðleikaárum okkar var samið um hækkun lægstu launa. Þáverandi ríkisstjórn hækkaði bætur strax um mitt sumar 2011 um 8% og greiddi eingreiðslu upp á 51 þús. kr. á erfiðleikaárinu 2011.

Virðulegi forseti. Það verður að hafa þetta í huga. Það sem deilan stendur mest um núna er þessi afturvirka hækkun sem við erum að tala um að þurfi að koma inn núna. Allir aðilar á vinnumarkaði hafa fengið afturvirka hækkun. Við fengum hana, ráðherrar fengu hana, dómarar og allir í opinbera kerfinu sem falla undir kjararáð. Um þetta stendur deilan. 172 þús. kr. eru þetta í dag. 10% hækkun er 17 þús. kr. fyrir skatt. Viðkomandi fengi ekki nema, ja, ætli það séu ekki að hámarki 11 þúsund eftir skatt? Um þetta snýst málið.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður fór með þuluna úr pappírum meirihlutaflokkanna um upphæðina í milljörðum króna. Sannarlega er hún mjög há, en við verðum að hafa í huga að önnur tala er líka mjög há, það eru nefnilega 47 þús. aldraðir og öryrkjar á Íslandi í dag. (Gripið fram í: 193 þúsund fyrir skatt.) Ég er að tala um eftir skatt. Menn lifa ekki á því sem er fyrir skatt. (Gripið fram í.) Þetta vildi ég bara segja hér núna. Ég trúi ekki öðru (Forseti hringir.) en að hjarta hv. þm. Jóns Gunnarssonar, sem talar hérna svoleiðis, sé að nálgast okkur um það að tillaga okkar um að aldraðir og öryrkjar fái afturvirka hækkun á þessu ári sé mjög sanngjörn. Verðmætasköpun og ýmislegt í þjóðfélaginu er sem betur fer svo gott að það er borð (Forseti hringir.) fyrir báru. Það lítur út fyrir 35 milljarða afgang á þessu ári.