145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Margar góðar ræður hefur hv. þm. Jón Gunnarsson flutt. Þessi ræða hjá hv. þingmanni var aumkunarverð. Hún var ömurleg. Það var ömurlegt að hlusta á hv. þingmann tala eins og það væri svipað ástand núna í blússandi góðæri og árið 2009 þegar ríkisstjórnin þurfti að hreinsa flórinn eftir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sem ollu hér skelfilegasta efnahagslega skipbroti lýðveldissögunnar og þótt lengra væri leitað aftur eins og var einn meginkjarni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á sínum tíma. Er hv. þingmaður virkilega stoltur af því að tala hér á aðra hliðina um blússandi góðæri og hvað allt gengur vel en horfa á hina hliðina í þá gapandi staðreynd að það eina sem þessi ríkisstjórn hefur gert fyrir aldraða og öryrkja er að láta þá fá eftir skatta skitinn 10 þúsund kall? Treystir hv. þm. Jón Gunnarsson sér til þess að lifa á 172 þús. kr. á mánuði eftir skatta? Nei, hann gæti það ekki og fáir þingmenn gætu það. Það er samt sem áður hlutskipti fjölmargra aldraðra og öryrkja. Það var aumkunarvert að sjá hv. þingmann tala um þetta af slíkri fákunnáttu að hann þurfti að hlaupa eins og lítill hvolpur til stóru mömmu til að fá upplýsingar um mál sem hann bersýnilega hefur ekki kynnt sér. Það er skelfilegt að sjá mann eins og hv. þm. Jón Gunnarsson lenda í því hlutskipti að þurfa að verja hæstv. félagsmálaráðherra sem á að vera verndari og skjól aldraðra og öryrkja en hefur engu getað um þokað í því máli frekar en öðrum sem hæstv. ráðherra hefur komið að þó að ég virði það henni til vegs að hún skuli loksins eftir sjö daga umræðu leggja í að koma hingað og hlusta á umræður.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann stoltur af því að í mesta góðæri Íslandssögunnar, þegar ríkisstjórnin tók við góðu búi frá fyrri ríkisstjórn, skuli það eina (Forseti hringir.) sem ríkisstjórninni hefur tekist að gera til að rétta hlut aldraðra og öryrkja að láta þá fá skitinn 10 þúsund kall? Og getur hann svarað mér því hvort það sé einhver hópur annar en aldraðir og öryrkjar sem ekki (Forseti hringir.) fá bætur greiddar eftir á? Er það einhver hópur?