145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svolítill æsingur í hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, vini mínum. Ég hef sjaldan séð hann eins og hann er í dag. Ég veit ekki hvað veldur eiginlega. Hann er kannski farinn að þreytast, kallinn, það er svo sem ekkert óeðlilegt. Hér hafa verið einhverjir næturfundir og þó að hann stæri sig af því að vilja helst vera í þinghúsinu við sólarupprás eftir að hafa verið hér alla nóttina er ég ekki viss um að það fari honum vel.

Auðvitað er ekkert skrýtið að hv. þingmanni finnist ræða mín hafa verið ömurleg, bara ömurleg og hvernig orðaði hann það? Jæja, við látum það duga sem tilvitnun, virðulegi forseti. Það er auðvitað af því að ég rakti málflutning þessara flokka, þessar þingmanna, aðgerðir þeirra, fór aðeins heim í garðinn til þeirra þar sem þeir ráða öllu og fór yfir það hvernig þeir forgangsraða í þágu þessara hópa, eða hitt þó heldur, heima hjá sér. Þeir geta komið og gert sig breiða í þinginu með einhver loforð. Mér finnst þetta popúlismi. Mér finnst þetta innihaldslaust, sérstaklega ef litið er til þess hvernig þeir standa að hlutum heima hjá sér og hvernig þeir stóðu að hlutum á síðasta kjörtímabili.

Já, það gengur vel, sem betur fer, en það gæti gengið betur. Það er ekki fyrir verk stjórnarandstöðunnar að það gengur vel. Það er svo langt því frá. En fyrir verk stjórnarandstöðunnar gengur kannski ekki alveg eins vel og það gæti gengið vegna þess að þau hafa lagst gegn ákveðnum velferðarverkefnum. Við erum ekki komin í mesta góðæri Íslandssögunnar enn þá, en við erum að nálgast það og ég held að það geti orðið enn betra, þ.e. ef þessir ríkisstjórnarflokkar fá að byggja upp það velferðarsamfélag sem þeir vilja standa fyrir. Þá verður hér samfélag sem getur gert vel við alla þegna sína, betur en við gerum í dag. Það (Forseti hringir.) er auðvitað okkar markmið.