145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skánar ekkert ástandið á kallinum eftir því sem hann fer oftar upp. Ég býð ekki í það ef þetta verður langt fram í nóttina eins og stefnir í hjá okkur, en það er annað mál.

Mér finnst þetta málflutningur til að moka yfir eigin syndir, til að moka yfir það sem sagan og nútíminn segir okkur um það hver raunveruleg áhersla þessara flokka er. Vitna ég þá aftur til Reykjavíkurborgar sem er með allt niður um sig í þessum efnum. Ég hvet hv. þingmann til að fara yfir götuna og tala við kollega sína og flokksfélaga, borgarstjórann og fleiri, og sjá hvort þeir eru ekki tilbúnir að hjálpa því fólki sem verst hefur það. Nei, þeir eru að auka álögur á þetta fólk.

Við erum á réttri leið. Það var mjög mikið skorið niður hjá þessum hópum á síðasta kjörtímabili meðan menn sinntu gæluverkefnum sínum. Það gagnrýni ég og við gagnrýndum á sínum tíma að menn gátu farið í rándýr gæluverkefni á sama tíma og þeir skáru niður hjá þessum hópum. Þó að lægstu bætur hafi verið varðar var það hjóm eitt miðað við heildarpakkann.

Ég er ekki með augun full af krókódílatárum, virðulegur forseti. Það voru orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þegar hann sagði að nú væri mesta góðæri Íslandssögunnar. Ég sagði það ekki. Ég sagði að við værum hér í miklu góðæri, en ég sagði að mesta góðærið ætti eftir að koma og það byggðist auðvitað á þeim forsendum sem ég fór yfir í ræðu minni. Það er mikilvægt. Ég vonast til þess að í þessari umræðu megum við þó læra að það verði til þess að sú umræða, þegar kemur að því hvernig við ætlum að treysta stoðir samfélagsins til að geta byggt upp betra velferðarsamfélag, verði málefnalegri en raun ber vitni á þessu kjörtímabili.

Hvort aldraðir og öryrkjar séu þeir einu sem fá bætur með þessum hætti er bundið í lög. Það hefur ekki verið lögð fram lagabreyting af hálfu minni hlutans á þingi um hvernig með þetta skuli farið. Það er grundvallaratriði (Forseti hringir.) að aldraðir og öryrkjar eru í þeim lögum varðir fyrir því að ef kaup hækkar ekki en verðlag hækkar meira fá þeir það reiknað ofan á bætur sínar. Þetta er sú leið (Forseti hringir.) sem var farin og valin og hún var keyrð á síðasta kjörtímabili jafnt sem nú og hv. þingmaður gerði engar tilraunir til að breyta þá.