145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess sem hér var sagt síðast eru fordæmi frá 2011 fyrir því hvernig má gera þetta. [Kliður í þingsal.] Þá voru launin hækkuð hjá eldri borgurum og öryrkjum að sama skapi og samið var um laun á vinnumarkaðnum, til að hafa sagt það. Það sem einu sinni hefur verið framkvæmt er hægt að framkvæma aftur.

Mig langaði að fara aðeins ofan í nokkra hluti sem eru kannski ekki stóru línurnar. Við erum mikið búin að tala um stóru línurnar. Fyrir vikið verður margt út undan sem annars væri vert að ræða. Mig langar meðal annars að tala um að ég á ósvaraða fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem snýr að Þjóðarsáttmála um læsi og að námsefni og námi heyrnarlausra barna. Það kemur fram á bls. 289 í fjárlagafrumvarpinu í lið 02-430, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, að lögð er til 10 millj. kr. hækkun á framlögum til verkefna sem fela í sér þýðingu á kennsluefni grunnskóla yfir á íslenskt táknmál, móðurmálskennslu í tvítyngi og fjarkennslu grunnskólanemenda. Fyrirspurn mín liggur ósvöruð frá því í september. Ráðherrann getur ekki svarað því hvernig staðið er að gerð námsefnis fyrir heyrnarlaus börn og hvernig hann tryggir að þau fái í leik- og grunnskóla viðeigandi námsefni og hversu miklu fé hefur verið varið í að gera slíkt námsefni undanfarin tvö ár. [Kliður í þingsal.] Þetta er líka hópur þeirra sem minna mega sín.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn aftar í salnum að hafa hljóð. Hv. 9. þm. Norðaust. hefur orðið.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. Þetta er líka hópur sem stendur höllum fæti í samfélaginu hvað varðar að sækja sér aðstoð og kallar eftir því að fá það sem honum ber. Það er mjög dapurlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera búinn að svara þessu. Það á auðvitað að liggja fyrir í menntastefnu ráðherrans hvernig þetta námsefni verður tryggt. Ég spurði hann líka um það í hverju ráðstafanir fælust til að fylgja 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Því hefur ekki enn verið svarað. Það á auðvitað að liggja nokkuð á hreinu. Þessar 10 milljónir sem eru lagðar fram í fjárlögum eru ekki til að sinna þessum hlutum heldur einhverju allt öðru, þ.e. þýðingu á efni yfir á íslenskt táknmál, móðurmálskennslu í tvítyngi og fjarkennslu grunnskólanemenda. Það er alveg ljóst að þetta dugar ekki til. Þetta er það eina sem sagt er um þennan lið. Af því að við höfum verið að tala hér um eldri borgara og öryrkja þá er þetta líka hópur sem stendur höllum fæti.

Ég vendi kvæði mínu í kross. Ég ætla að taka einstök mál fyrir. Ræðutíminn er stuttur og maður kemur fáu að. Eitt af því sem minni hlutinn leggur til er að styrkja menningu umfram það sem gert er í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. menningarsamninga landshlutanna. Þessi ríkisstjórn hefur því miður farið illa með Sóknaráætlanir landshluta sem við lögðum af stað með á síðasta kjörtímabili með alþjóðlega viðurkenndu verklagi þar sem heimamenn forgangsraða og skipta því opinbera fé sem rennur til byggða- og samfélagsþróunar og landshlutasamtökin hafa haft umsjón með. Það er alveg klárt mál að ef tilgangur og markmið sóknaráætlana á að ná fram að ganga þarf að auka fjármuni í þær. Núverandi ríkisstjórn ákvað að setja menningarsamningana þarna undir. Við höfum miklar áhyggjur af því að það komi til með að skerða framlögin. Það er verið að setja samningana þarna inn núna í 2. umr. af hálfu meiri hlutans og verklagið er óljóst. Við höfum lagt til að sóknaráætlanir landshluta fái veglegar fjárhæðir til að Listskreytingasjóður og listir og ýmislegt í þeim geira sem fær framlög frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og tilheyrir byggðaáætlun geti sinnt sínu. Eins og við þekkjum er þetta eitt af því sem skilar miklu í þjóðarbúið.

Ég ætla að venda kvæði mínu mörgum sinnum í kross. Formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa gumað af því að leggja mikla fjármuni í heilbrigðisþjónustuna. Ég ætla ekkert að draga úr því að miklir fjármunir fara í heilbrigðisþjónustuna. Það þarf meira, eins og við vitum. Þau hafa sagt að það sé áhersla á heilsugæsluna. Nú standa Rangæingar frammi fyrir því að það á að loka heilsugæslunni hjá þeim á Hvolsvelli tvo daga í viku til reynslu. Það vill enginn, að mér skilst, svara neitt sérstaklega fyrir þetta fyrr en einhvern tíma eftir að búið er að samþykkja fjárlög. Það er nú eins og það er. Þegar fólk þarf að sækja heilbrigðisþjónustu langar vegalengdir, eins og á þessu svæði, hefur tilhneigingin verið sú eins og við þekkjum að draga þjónustuna inn á stærri svæði en horfa ekki nægjanlega vel á samgöngur. Eins og við vitum eru þær víða ekki góðar. Við verðum að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort tryggt sé að heilsugæsla á Hvolsvelli verði opin áfram eða ekki.

Í breytingartillögum meiri hlutans kemur fram að sameina eigi Rannsóknamiðstöð Íslands og náttúrustofur um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, RAMÝ svokallaða, og Náttúrufræðistofnun Íslands. Sveitarstjórnarmenn Skútustaðahrepps og fleiri hafa komið að máli við okkur og sagt að í rauninni liggi ekkert til grundvallar sem styðji þessa tillögu. Við fengum í dag umsögn frá Mývatnssveit eða Skútustaðahreppi þar sem áréttað er eftir samtal við fjárlaganefnd að þetta sé ekki gott. Sveitarstjórn telur að ekki hafi verið sýnt fram á hvernig þetta muni efla starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar í Mývatnssveit og bendir sérstaklega á athugasemdir við frumvarpið þar sem kemur fram að með sameiningunni sé horft til samnýtingar á húsnæði, búnaði og starfsfólki og þar með sé verið að segja að taka eigi rannsóknamiðstöðina frá Skútustaðahreppi. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi. Þá erum við að fara frá svæðinu, Mývatni, sem er verið að rannsaka, og þeirri tengingu sem nærsamfélagið í Mývatnssveit er. Þessi ríkisstjórn, sem talar mikið fyrir því að flytja störf á landsbyggðina, virðist í staðinn ætla að taka þessa starfsemi í burtu en ekki styrkja. Mér þykir það ámælisvert.

Ég gleymdi varðandi heilbrigðismálin áðan að nefna Langanesbyggð. Við höfum verið að tala fyrir heilbrigðisþjónustu í afskekktum jaðarbyggðum sem hafa átt undir högg að sækja. Um allt land, ekki bara í mínu kjördæmi heldur um allt land fáum við inn á fund fjárlaganefndar áhyggjufullar sveitarstjórnir sem geta ekki staðið undir rekstri á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Við vitum að sérstaklega þar sem eru aðeins tíu rúm eða eitthvað slíkt standa sveitarfélög frammi fyrir því að ef einhver fellur frá og ekki tekst að nýta rýmið strax þá er komið tap hjá stofnuninni. Það er bagalegt að ekki skuli vera greitt eitthvert fast gjald fyrir þessi litlu hjúkrunarheimili sem berjast við að halda úti starfsemi því að kostnaðurinn er sá sami. Það má segja um Grýtubakkahrepp, sem hefur rekið einstaklega vel sitt nýja og fallega heimili, að hann stendur frammi fyrir þessum vanda um leið og einhver fellur frá. Dvalarrými þyrftu að breytast í hjúkrunarrými, jafnvel bara eitt pláss, til að tryggja reksturinn. Það kostar ríkissjóð ekki neinar óskaplegar fjárhæðir þegar upp er staðið. Því miður virðist stefnan í öldrunarmálum ekki vera sýnileg.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka (Forseti hringir.) í þessu frumvarpi. Ég vildi bara stikla á ýmsu sem mér hefur ekki fundist fá neina athygli í umræðunni.