145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef sagt að þeir hópar sem við höfum rætt hér borði ekki talnasúpu, ekki einu sinni naglasúpu ef út í það er farið. Þegar verið er að tala um hver gerði hvað hvenær og hvernig hefur mér misboðið þegar bæði ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og forustufólk hennar leyfir sér að koma hér upp og segja: Þið gerðuð þetta og hitt. Það var nefnilega svo mikið val hjá síðustu ríkisstjórn að koma að gjaldþrota ríkissjóði, eða hvað? Mér misbýður algerlega slíkur málflutningur.

Því miður skildu þeir flokkar sem nú sitja við völd ríkissjóð eftir eins og við þekkjum, eftir áratuga langa stjórnarsetu. Það er í rauninni kraftaverk að hafa sloppið þó svona frá þessu eins og við gerðum. Það fólk sem býr við þessar lágu tekjur tók á sig þvílíkar byrðar sem smám saman hefur verið reynt að leiðrétta. Við sögðum alltaf: Þetta eru fyrstu hóparnir.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim breytingum sem hér eru lagðar til af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þær duga bara ekki til. Þær eru ekki sanngjarnar. Talnaleikfimin sem farið er í gefur ekki þá niðurstöðu sem Öryrkjabandalagið fær út þegar þau leggja þetta saman. Ef við tökum frá 3% sem hér voru í upphafi árs — vegna þess að það gerðist jú áður en samið var og það er svolítið sérstakt að leyfa sér að reikna það inn í kjarasamninga sem gerðir eru í maí. Það er mjög einkennilegt. En auðvitað eigum við fyrst og fremst að hugsa um að fólk þarf að fæða sig og klæða. Við stöndum bara frammi fyrir því. Þær hækkanir sem hér um ræðir — og mér misbýður líka fullyrðingin (Forseti hringir.) sem fram kemur í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins þegar sagt er að lífeyrisþegar fái meira í sinn vasa en meðallaunþegi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hvaða meðallaunþegi? Ég spyr.