145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég sagði áðan þurfum við bara að tala um staðreyndir. Við þurfum að tala um þær staðreyndir að fólk þarf að borða og það þarf að sjá sér farborða. Það gerir það ekki í einhverjum talnaleik. Það er bara þannig.

Á fundi fjárlaganefndar komu fulltrúar, eins og hæstv. ráðherra sem hér situr í sal hefur væntanlega vitneskju um því að hennar fólk úr ráðuneytinu var þar á fundi eftir fundinn með Öryrkjabandalaginu og Félagi eldri borgara, þar sem rök voru færð fyrir útreikningum þeirra og hvernig þau meta stöðuna. Þess vegna segi ég að við getum leikið okkur með tölur fram og til baka og komist að einhverri tiltekinni niðurstöðu eða ákveðið að við ætlum að komast að einhverri tiltekinni niðurstöðu. Við getum ekki leyft okkur að tala um milljarða eða prósentur. Mér finnst það ekki. Það þarf líka að hugsa um hvort fjölgað hafi í hópnum á milli ára. Er það svo? Hversu mikið? Hvað skiptir það máli í þessum samanburði? Og svo framvegis.

Þegar fólk talar um milljarða eða eitthvað slíkt þarf líka að hugsa um að fólki fjölgar sem er eldri borgarar og öryrkjar, sérstaklega náttúrulega eldri borgarar. Það er hluti af heildartölunni en ekki því sem hver og einn fær í vasann til að sjá sér farborða.

Ég fékk afturvirka leiðréttingu launa aftur til 1. maí og ég skil ekki þá tregðu að halda því fram að þessi örfáu prósent á lægstu launin, sem hér er verið að segja að ýmist séu greidd (Forseti hringir.) fyrir fram eða eftir á, eigi að jafna hækkunina sem kemur í maí á næsta ári og hækkunina sem kom í maí á þessu ári. (Forseti hringir.) Ég næ ekki því samhengi, ekki frekar en eldri borgarar og öryrkjar. En kannski erum við ekki nægilega vel gefin til að reikna, virðulegi forseti.