145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að segja það alveg hreint eins og er, ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin að lækka virðisaukaskatt á lyf og hjálpartæki. Það er svo margt sem væri gott að lækka virðisaukaskatt á, það væri bara gott ef við gætum lækkað virðisaukaskatt. Ég tel að í þessu sambandi væri betra að hækka launin sem þetta fólk fær, ellilaunin, örorkulífeyrinn, þannig að fólk ætti fyrir þessum útgjöldum frekar en að færa skattinn sérstaklega til vegna þess að það eru náttúrlega svo margir aðrir sem nota lyf, ekki bara eldri borgarar og öryrkjar. Þannig að ég er þeirrar skoðunar að betra væri að bæta kjörin á þeirri hliðinni þannig að þessi hópar ættu auðveldara með að greiða fyrir nauðsynjar.

Á hinn bóginn var komið inn á matarskattinn. Það var náttúrlega í stíl við annað hjá þessari ríkisstjórn að hækka matarskattinn sem vegur náttúrlega þyngst í innkaupakörfu þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þess vegna fannst mér það mjög merkilegt sem ég hafði sannast að segja ekki alveg „registrerað“ svo klárlega eins og ég gerði í dag að settir voru 1,4 milljarðar í það sem kallað var mótvægisaðgerðir vegna hækkunar matarskattsins en 800 milljónir af því (Forseti hringir.) voru teknar til baka í fjáraukalögunum núna.