145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það og það má svo sem segja að margir nýta sér lyf og annað, en það er væntanlega vegna þess að fólk almennt þarf þess, það er ekki endilega eitthvert val. Þess vegna held ég að það kæmi því fólki ágætlega sem þyrfti á því að halda fremur en að lækka t.d. skatt af flatskjám og öðru slíku eins og gert var, bara til þess að setja hlutina í samhengi. Ég tek að sjálfsögðu undir að kjörin eru það sem þarf að bæta. Við höfum auðvitað barist fyrir því til margra ára að um það snúist málið, að lægstu laun í landinu hækki og það á líka við um bætur örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega.

Ég skil ekki röksemdafærslu núverandi ríkisstjórnar. Við stöndum frammi fyrir því að 50% af örorkulífeyrisþegum eru ekki með aðrar tekjur, t.d. ekki úr lífeyrissjóði. Fólk veigrar sér við að fara til læknis. (Forseti hringir.) Það kom ýmislegt annað fram á fundi með fjárlaganefnd og maður (Forseti hringir.) skilur eiginlega ekki eftir þann fund að það hafi ekki skilað sér til ríkisstjórnarinnar, útreikningar hennar harmónera ekki við útreikninga þessara hópa eða forsvarsmanna þeirra.