145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna þetta fyrirkomulag sé yfir höfuð löglegt, að hafa tryggingagjald sem síðan rennur ekki til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þar sem hugmyndin með tryggingagjaldinu er einmitt sú að vega upp á móti fjárþörf vegna atvinnuleysis, sér í lagi vegna þess að ég hef haft ákveðnar mætur á tryggingagjaldinu þar sem mér finnst felast í því ákveðið gegnsæi. Mér finnst mjög fínt varðandi skattlagningu, hvort sem hún er atvinnuveitandamegin eða launþegamegin eða hvað, að mjög skýrt sé hvert peningarnir fari vegna þess að það gerir stjórnmálin skýrari. Ég man eftir því í kosningabaráttunni 2013 að þar fór fólk að tala um tryggingagjaldið vegna þess að það var skýrt hvað var átt við. Ef fólk fór að tala um tekjuskatt þurfti það skyndilega að þvæla alla umræðuna með öllu sem ríkið gerir, en það var skýrt hvaða forsendur lágu að baki tryggingagjaldinu. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvers vegna það er pólitísk spurning hvort eigi að hækka gjaldið eða lækka gjaldið, nema vegna þess að það virðist vera löglegt að nýta þetta gjald í eitthvað annað en ætlast er til. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að þetta gjald eigi að nota til þess (Forseti hringir.) að fara í Atvinnuleysistryggingasjóð en ekkert annað.