145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hluti af gjaldinu fer í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sá hluti var hækkaður á meðan atvinnuleysi var hér sem mest, síðan hefur sá hluti lækkað og fer til annarra þarfa. Það er löglegt vegna þess að það er ákveðið hér og allt sem er ákveðið hér er löglegt, því að við setjum lögin í landinu. Það er ekkert ólöglegt við það. Það getur vel verið að það sé óskynsamlegt og væri hægt að gera hlutina öðruvísi, en löglegt er það.

Við getum kallað þetta tryggingagjald. Ég held að launamenn séu gjarnan mikið á móti launasköttum og segja að launaskattar hér, sem tryggingagjaldið er núna, séu miklu hærri en gerist annars staðar. Það er ekki rétt. Það er jafn vitlaust og þegar menn segja að það séu fleiri frídagar á Íslandi en í öðrum löndum. Það er líka ósatt.