145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér ekki á óvart að ríkisstjórnin vilji selja húsnæðið undan Þjóðskjalasafninu. Þetta er nefnilega í ætt við stefnu sem þessi pólitísku öfl hafa fylgt. Ég hélt að menn hefðu lært sína lexíu. Ekki langt undan er gamla Landssímahúsið sem á sínum tíma var selt og Landssíminn leigði það síðan af nýjum eigendum dýrum dómum. Ákveðið var að leigja húsnæði undir skrifstofur Alþingis en ekki eignast húsnæði. Alþingi setti gríðarlega fjármuni í að innrétta það og hefur leigt það síðan fyrir ærinn kostnað. Þetta var mjög heimskuleg ráðstöfun vegna þess að það er dýrara að leigja en að eiga. Hvers vegna skyldi annars vera orðinn arðvænlegur atvinnuvegur að leigja hinu opinberu húsnæði?

Ég kom þó ekki fyrst og fremst upp til að segja þetta heldur til að taka undir með hv. þingmanni sem rifjaði upp kjaraþróun á almennum launamarkaði, bar hana saman við það sem var að gerast í almannatryggingum gagnvart öryrkjum og öldruðum og sagði síðan að það væri rangt af hálfu Alþingis að ljúka þinghaldinu án þess að einhverjar ásættanlegri lyktir fengjust í það. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hvert beinir þingmaðurinn fyrst og fremst sjónum sínum? Er það að almannatryggingum og hag öryrkja og aldraðra, heilbrigðiskerfinu og útvarpinu? Mér heyrðist það, en í örfáum setningum langar mig að heyra hvert hv. þingmaður beinir sjónum sínum þegar hún vill endurskoðun á fjárlögunum áður en þingið fer heim.