145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á málefni Ríkisútvarpsins, aldraðra og öryrkja og Landspítalans. Umræða um aldraða og öryrkja hefur verið mjög öflug þessa dagana hjá stjórnarandstöðunni til að ná fram þeirri leiðréttingu á kjörum þeirra að greiða þeim laun afturvirkt eins og aðrir hópar hafa fengið. Manni finnst að stjórnarliðum líði ekki mjög vel með að bera ábyrgð á því að ekki sé neitt gert í þeim efnum og hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur gefið út að hann sjái eftir því að hafa ekki stutt tillögu stjórnarandstöðunnar um þessa leiðréttingu. Willum Þór Þórsson sagði í gær, minnir mig, eitthvað á þann veg að það væri gott ef hægt væri að einangra þann hóp sem þyrfti mest á því að halda innan þessara hópa að fá einhverjar kjarabætur. Hann lagði aldraða og öryrkja jafnt undir. Sér hv. þingmaður fram á að það sé einhver möguleiki að vinna það með stjórnarliðum að finna einhvern flöt á þessu því að það er, eins og hún hefur nefnt, óásættanlegt að við þingmenn ljúkum þingstörfum án þess að eitthvað sé gert? Telur hv. þingmaður að stjórnarliðar séu kannski meira að friða sína eigin samvisku með því að flagga einhverju í þessa áttina en að ekki sé pólitískur vilji æðstu ráðamanna til að hreyfa sig neitt í þessu máli öllu?