145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það stappi nærri því að þingið sé stjórnlaust þegar málum er svo komið að hv. þingmenn óska dag eftir dag eftir því að fá að ræða við þann handhafa framkvæmdarvalds sem fer með útgjaldamesta málaflokkinn. Dag eftir dag fá þeir þau svör að verið sé að koma boðum til hæstv. heilbrigðisráðherra. Lætur þá forusta Alþingis sig einu gilda hvort hv. þingmenn fái að njóta þess skýlausa réttar að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um til dæmis heilbrigðismál? Þeim þingmönnum sem eiga að fá að nota umræður til að ræða við handhafa framkvæmdarvalds um þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á er nánast sagt að éta það sem úti frýs. Það stappar nærri því að það séu svör hæstv. forseta þegar aftur og aftur, (Forseti hringir.) dag eftir dag, er sagt að það sé verið að gera reka að því að ná ráðherrum til samtals. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur beðið um það hér dögum saman og enn bólar ekkert á hæstv. heilbrigðisráðherra. Er þá ekki rétt að við köllum út björgunarsveitir og Slysavarnafélagið til að reyna að finna hæstv. ráðherra og koma honum í hús?