145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er búin að vera lenska hér frá degi eitt þegar við byrjuðum að ræða fjárlögin að þingmenn stjórnarflokkanna hafa afgreitt okkur bara sem röflara, fólk sem er að reyna að finna sér tilgang í lífinu með því að standa hér og tala út í eitt. Þau ættu heldur að koma hingað og hlusta á það sem við erum að segja. Það sem við erum að tala um er að aukin framlög þurfi til heilbrigðismála. Við erum hér að mótmæla því líka að menn séu að smygla í gegnum fjárlögin alls konar gríðarlegum stefnubreytingum eins og hér hefur verið nefnt, samanber einkavæðingu á heilsugæslunni og sömuleiðis stefnubreytingum í menntamálum þar sem 25 ára og eldri hefur verið ýtt úr framhaldsskólanum. Það eru þessi stóru stefnumarkandi mál sem við erum að ræða, að ég tali ekki um kjör eldri borgara og öryrkja. Þetta eru alvörumál sem við erum að tala um. Þetta er ekki bara eitthvert góðafólksröfl hjá stjórnarandstöðu að reyna að finna sér tilgang.

Ég held að stjórnarþingmenn og ráðherrarnir ættu að hunskast hingað í salinn, eiga við okkur samtal um þessi mál og svara fyrir það (Forseti hringir.) hvers vegna þau bregðast ekki við ákalli um breytingar.