145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni sem er sú fjórða í þessu stóra máli, fjárlögum fyrir árið 2016, að vera fyrst og fremst með landsbyggðargleraugu á mér og fara aðeins yfir þætti sem ég hef imprað á en vil fara aðeins dýpra ofan í. Þeir snúa að samgönguáætlun, sóknaráætlun, byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun, verkfærum sem eru til að byggja upp úti á landi það sem ríkisvaldið setur fjármuni í til framkvæmda og heimamenn, landshlutasamtök, vinna með ríkisvaldinu við að forgangsraða og byggja upp.

Ég gagnrýndi það í fyrri ræðu að innviðir væru vanfjármagnaðir og það vantaði mikið upp á þá fjármuni sem þyrfti í þær áætlanir sem ég nefndi hér á undan. Það er til skammar að samgönguáætlun liggi ekki enn fyrir.

Fjórðungssamband Vestfirðinga sendi fjárlaganefnd erindi, athugasemdir við fjárlagafrumvarpið 2016, eftir breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar. Ég ætla aðeins að grípa niður í þetta erindi, með leyfi forseta:

„Fjórðungssamband Vestfirðinga telur tillögur meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis við 2. umr. frumvarps til fjárlaga 2016 endurspegla þá stöðu sem lögbundnar langtímaáætlanir stjórnvalda eru nú í, svo sem samgönguáætlun, sóknaráætlanir landshluta, byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun. Er ýmist að endurskoðun áætlana fæst ekki afgreidd frá Alþingi, svo sem í tilfelli samgönguáætlunar og fjarskiptaáætlunar, eða að fjárhagsrammi endurspeglar ekki markmið stjórnvalda í málaflokknum, svo sem með sóknaráætlunum landshluta og byggðaáætlun.

Framangreind staða leiðir til þess að áætlanir eru vanfjármagnaðar, en til þess að bregðast við brýnustu úrlausnarmálum þá er gripið til aðgerða með einskiptisfjámögnun sem taka verður ár hvert til umræðu við afgreiðslu fjárlaga. Vinnubrögð verða því ómarkviss, undirbúningur ákvarðanatöku ógagnsær og tímasetning aðgerða virkar tilviljanakennd, þótt markmið aðgerða sé í flestum tilvikum jákvæð.

Framangreindar áætlanir varða framþróun Vestfjarða miklu og hefur Fjórðungssambandið lagt ríka áherslu á að þær verði efldar og verkefni tímasett og óvissu um framgang mála þar með eytt.“

Hér fylgir Fjórðungssambandið sameiginlegri stefnu landshlutasamtaka sveitarfélaga en sér sig um leið knúið til að fjalla sérstaklega um stöðu einstakra verkefna er varða samgöngumál og fjarskiptamál. Var því samgöngunefnd Fjórðungssambandsins falið að fjalla um tillögu meiri hluta fjárlaganefndar á fundi sínum þann 8. desember sl. Samþykktir nefndarinnar komu í framhaldinu. Ég ætla að grípa niður í eina samþykkt þar sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Samgöngunefnd lýsir yfir vonbrigðum sínum á því hve illa gengur að koma áætlunum fram og skorar á ríkisstjórn og Alþingi að vinna að málinu af alvöru. Samgönguáætlun er grundvallarskjal fyrir stefnumörkun samgangna í landinu og ólíðandi er að þriðja árið í röð skuli málið ekki vera klárað frá Alþingi.“

Ég tek undir það.

Hér er samþykkt varðandi fjárlagaliðinn 06-672, Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta:

„Samgöngunefnd styður þá tillögu í nefndaráliti að aukið er við fjármagn til eflingar innanlandsflugi. Samgöngunefnd beinir þeirri tillögu til 3. umr. fjárlaga 2016 að fjármagn verði veitt á fjárlögum 2016 til rannsókna á nýju framtíðarflugvallarstæði fyrir Vestfirði.“

Ég vil taka undir þetta. Ég vakti athygli á því í fyrri ræðu minni um þessi mál, þar sem breytingartillaga meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. gekk út á það að setja 400 milljónir inn í þennan lið, að í sjálfu fjárlagafrumvarpinu væri þessi liður skorinn niður um 500 milljónir. Það vantar enn 100 milljónir upp á að mætt sé þeim niðurskurði sem búið var að gera ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sjálfu þannig að ekki er allt sem sýnist í þeim málum.

Í ályktun Fjórðungssambands Vestfirðinga segir, með leyfi forseta:

„Fjórðungsþing skorar á stjórnvöld að gerð sé úttekt á mögulegum nýjum flugvallarstæðum á Vestfjörðum sem geti þjónað innanlands- og millilandaflugi. Bent er á stækkun þjónustusvæðis slíks flugvallar með tilkomu Dýrafjarðarganga og nýs vegar um Dynjandisheiði. Nýr flugvöllur er mikilvæg forsenda fyrir frekari atvinnuuppbyggingu í landshlutanum.“

Þá vil ég vekja athygli á því að Þingeyrarflugvöllur, sem hefur verið varaflugvöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll, hefur ekki verið í notkun í hátt á annað ár. Það er bagalegt. Oftar en ekki þegar hefur ekki verið hægt að fljúga á Ísafjarðarflugvöll hefði verið hægt að lenda á Þingeyrarflugvelli vegna þess að vindátt er yfirleitt ekki sú sama þar og í Skutulsfirði, en völlurinn býður ekki upp á að það sé verið að lenda þar með fulllestaðar flugvélar svo að hann hefur hreinlega ekkert verið í notkun. Sú ákvörðun hlýtur að hafa verið tekin á einhverjum stað vegna þess að það vantar fjármagn til að endurbyggja burðarlagið á flugvellinum. Mér finnst til algerrar háðungar hvernig veikustu svæði landsins eru kýld niður smátt og smátt. Það er ekkert endilega verið að ræða það opinberlega heldur bara gerist það á bak við tjöldin að verið er að veikja þessi svæði. Síðan geta þingmenn stjórnarliðsins komið fram og barið sér á brjóst og talað digurbarkalega um að þeir séu að leggja mikla fjármuni í uppbyggingu á landsbyggðinni í breytingartillögu við fjárlögin, fjárlögin sem sýna fram á vanfjármögnun til innviðauppbyggingar á landsbyggðinni á svo mörgum sviðum. Þó að það komi einhverjar sárabætur í formi lítilla fjárhæða hér og þar er það ekki til að mæta þeirri miklu þörf sem liggur fyrir að er svo brýn til að styðja við veika byggð á þessum svæðum.

Mig langar aftur að bera niður í erindi Fjórðungssambands Vestfjarða. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samgöngunefnd fagnar því að aukið fjármagn verði nú veitt til samgöngumála í fjárlögum 2016 vegna vegagerðar utan stofnvegakerfis, en mótmælir harðlega því vinnulagi sem er viðhaft við úthlutun þess fjármagns í tillögu meiri hluta fjárlaganefndar með útlistunum á einstaka framkvæmdum. Samgöngunefnd skorar á Alþingi að afgreiða samgönguáætlun án tafar og nýta hana við forgangsröðun verkefna.“

Ég vil bæta við að í breytingartillögum meiri hlutans koma 235 milljónir inn í þennan þátt vegagerðar og viðhalds vega, sem eru smáfjármunir þegar vegagerð er annars vegar og klárast á nokkrum dögum ef það á að bera ofan í eða byggja upp vegi, ég tala nú ekki um ef verið er að leggja slitlag eða byggja varanlega upp vegi. Þetta eru bara smámunir þegar vegagerð er annars vegar, 235 milljónir sem eru settar ómarkvisst utan samgönguáætlunar. Því mótmælir samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga og vill að röðun verkefna og forgangsröðun þeirra fari eftir samgönguáætlun.

Ég ætla að láta þetta gott heita. Mér fannst alveg vera tímabært að láta landsbyggðina fá kastljósið í þessari umræðu. Við höfum varið umræðu okkar mikið (Forseti hringir.) undanfarið í að berjast fyrir bættum kjörum elli- og örorkulífeyrisþega og sú barátta heldur áfram, en baráttan fyrir landsbyggðina heldur líka áfram og ég mun sinna því hlutverki eftir sem áður.