145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og tek undir að það er alveg þess virði að ræða hagsmuni landsbyggðarinnar við þessa umræðu þótt við tökum auðvitað ekki áherslurnar að neinu leyti frá öðrum þáttum sem við höfum rætt nú í dágóða stund.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að með auknu sjálfstæði landshluta, sér í lagi sveitarfélaga, sé hægt að tryggja þessa hagsmuni betur, frekar en að skattféð fari allt í ríkissjóð og því síðan útdeilt á pólitískum forsendum á hinu háa Alþingi.

Mig langar í ljósi þess að benda á tvær stefnur sem hafa verið samþykktar hjá okkur pírötum sem stefnumál. Þar á meðal er að mögulegt sé að sundurgreina tekjur ríkissjóðs og útgjöld eftir sveitarfélögum. Slík greining mundi gera okkur auðveldara til dæmis að greina hvort það væri góð hugmynd að af tekjuskatti væri greitt útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjutengda starfsemi, eða virðisaukaskatti.

Þegar ég fer út á land, sem er sjaldnar en ég mundi vilja, fæ ég oft þá kvörtun frá fólki að því finnst eins og allt fjármagnið fari til Reykjavíkur og sé síðan útdeilt þaðan á pólitískum forsendum þegar reyndin er sú að gríðarleg verðmæti verða til á landsbyggðinni sem skila sér í formi skatttekna, en þær skatttekjur fara hingað til Reykjavíkur í raun og veru, til ríkissjóðs og er útdeilt þaðan. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður mundi taka undir það að aukið sjálfstæði sveitarfélaga og aukið sjálfstæði landshluta, hvernig svo sem það væri afmarkað, mundi leiða af sér að þessi svæði gætu sjálf tekið ákvarðanir varðandi ýmsa hluti sem annars eru ákveðnir hér, ég veit ekki með göng en vissulega vegi og því um líkt. Ég velti fyrir mér hver afstaða hv. þingmanns sé gagnvart þessu.